„Alltaf vitað að ég myndi fá þetta“

Hérðasdómur Reykjaness dæmdi blaðamanni í vil í máli sem Seðlabankinn …
Hérðasdómur Reykjaness dæmdi blaðamanni í vil í máli sem Seðlabankinn höfðaði á hendur honum. Ritstjóri Seðlabankans segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég fagna þessari niðurstöðu auðvitað, en hún kemur ekki á óvart. Ég hef alltaf vitað að ég myndi fá þessar upplýsingar á endanum.“ Þetta segir Ari Brynjólfsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, en Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í morgun honum í vil í máli sem Seðlabanki Íslands höfðaði á hendur honum.

Í samtali við mbl.is í dag sagði Stefán Jóhann Stefánsson, ristjóri Seðlabankans, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað. Ari hefur því ekki enn fengið upplýsingarnar í hendur. „Ég á eftir að fara yfir það með lögmanni mínum hvað þeir hafa langan tíma til að afhenda gögnin. En ég mun fara fram á þau sem fyrst, mögulega í dag,“ segir Ari. 

Í nóv­em­ber í fyrra sendi Ari fyr­ir­spurn á bank­ann þar sem óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um um til­hög­un náms­leyf­is Ingi­bjarg­ar Guðbjarts­dótt­ur, þáver­andi fram­kvæmda­stjóra gjald­eyris­eft­ir­lits bank­ans, árið 2016 en hún sótti MPA-nám í Banda­ríkj­un­um veturinn 2016—2017, en sneri ekki aft­ur til starfa hjá bank­an­um að námi loknu.

Seðlabank­inn neitaði að svara fyr­ir­spurn­inni og kærði Ari bank­ann því til úr­sk­urðar­nefnd­ar um upp­lýs­inga­mál, sem úr­sk­urðaði hon­um í vil í júlí. Bankinn freistaði þess í héraðsdómi að fá úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál hnekkt en hafði, sem fyrr segir, ekki erindi sem erfiði.

Leynd réttlætanleg á „viðbótarlaunum“

Fyrir dómi tókust deiluaðilar á um eðli samningsins milli Ingibjargar og bankans. Í máli Seðlabanka Íslands kom fram að Ingibjörg hefði fengið námsstyrkinn vegna „sérstakrar hæfni, árangurs og álags í starfi“ og styrkurinn teldist því „viðbótarlaun“ og flokkaðist því ekki undir föst launakjör, sem eru opinberar upplýsingar. Þessu hafnaði lögmaður blaðamanns. Laun væru laun, og velti hann því upp hvort sami „leyndarhjúpur“ ríkti ef Ingibjörg hefði fengið bíl eða „gullstöng úr kistunni“.

Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins.
Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert