Erfitt að vinda ofan af ákvörðunum fyrir börnin

Hörður Helgi segir mikilvægt að breyta þeim hugsunarhætti að börn …
Hörður Helgi segir mikilvægt að breyta þeim hugsunarhætti að börn séu bara börn þar til þau fái sjálfræði 18 ára gömul og geta farið að taka eigin ákvarðanir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Horfa verður til þess að ungt fólk í dag hefur allt öðruvísi miðlalæsi og nálgun varðandi meðferð persónuupplýsinga en þeir sem eldri eru og ætti að fá svigrúm til þess að taka ákvarðanir sem fullorðnir eru ekki endilega sammála.

Þetta segir Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum, sem hélt erindi á málþingi um persónuvernd barna í starfrænum heimi í Háskóla Íslands í dag. Í erindi sínu fjallaði Hörður Helgi um þær hættur sem steðja að persónuvernd og friðhelgi einkalífs einstaklinga, og þá sérstaklega barna, vegna aukinnar stafrænivæðingar stjórnsýslunnar.

Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum.
Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum. Eggert Jóhannesson

Hörður Helgi segir að fljótlega eftir að almennt regluverk var sett í kringum íslenska stjórnsýslu á tíunda áratug síðustu aldar hafi það sem margir kalli fjórðu iðnbyltinguna skollið á og þrýstingur á starfrænivæðingu stjórnsýslu aukist.

Lítið svigrúm til að bregðast við gagnaleka og innbrotum

„Það er svo árið 2003 sem kafla er bætt við í stjórnsýslulög sem alltof sjaldan er fjallað um og er í raun nokkuð byltingakenndur. Þar er fjallað um með hvaða hætti sé hægt að afgreiða mál starfrænt, losna við pappír, undirrita með rafrænum skilríkjum, eins og við þekkjum úr atvinnulífinu, svo sem þegar við erum að versla við bankana okkar. Þetta er allt saman búið að taka miklu miklu lengri tíma í stjórnsýslunni og þessu fylgja ýmsar hættur loksins þegar við förum af stað,“ útskýrir Hörður Helgi.

Þar nefnir hann sem dæmi að þó metnaðurinn sé mikill sé lítið fjárhagslegt svigrúm til þess að gæta öryggis allra þeirra upplýsinga sem stjórnvöld hafi um almenning sem leiði til aukinnar hættu á gagnaleka, innbrotum og röngum ákvörðunum, svo fátt eitt sé nefnt.

Aukið val um ráðstöfun eigin upplýsinga gagnist ekki viðkvæmum hópum

Með aukinni stafrænivæðingu, svo sem sjálfvirkri ákvarðanatöku véla, fylgi svo nýjar áhættur sem takast þurfi á við. „Þetta erum við farin að sjá í atvinnulífinu og það er bara tímaspursmál hvenær þetta kemur í stjórnsýsluna. Þá þurfum við að glíma við spurninguna hvort nægs hlutleysis sé gætt eða hvort það komi inn ómeðvituð hlutdrægni vegna algóriþma sem er ekki þjálfaður til þess að gæta jafnræðis og málsmeðferðarreglum stjórnsýslunnar.“

Hörður Helgi segir að helst sé hægt að takast á við þessa áhættu með því að gefa hverjum og einum meiri möguleika á að velja hvernig farið er með upplýsingar um þá. 

„En þetta gagnast lítið viðkvæmum hópum, hvort sem það eru aldraðir, innflytjendur, fatlaðir eða börn. Börn eru klárlega einn af þessum viðkvæmu hópum. Foreldrar, kennarar, þjálfarar, við erum endalaust að taka ákvarðanir sem eiga eftir að hafa mjög langvarandi áhrif á friðhelgi einkalífs og persónuvernd barna okkar, hvort sem verið er að birta myndir af þeim eða ákveða hvar upplýsingar þeirra eru skráðar eða hvernig er farið með þær, sem verður erfitt að vinda ofan af þegar þetta unga fólk er orðið nægilega sjálfráða til að taka eigin ákvarðanir.“

Börn verði í auknum mæli kölluð að borðinu

Hörður Helgi segir að í þessu samhengi sé mikilvægt að breyta þeim hugsunarhætti að börn séu bara börn þar til þau fái sjálfræði 18 ára gömul og geta farið að taka eigin ákvarðanir. Það verði að kalla börn að borðinu og gefa þeim kost á, eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, að taka þátt í ákvarðanatökunni.

„Þá þurfum við að horfa til þess að ungt fólk í dag hefur allt öðruvísi miðlalæsi og nálgun varðandi meðferð persónuupplýsinga en við sem eldri erum og þau ættu að fá svigrúm til þess að taka ákvarðanir sem við erum ekki endilega sammála.“

mbl.is