Erfitt að hrífast ekki af Klopp

Klopp lyftir Evrópubikarnum eftir að Liverpool tryggði sér sigur í …
Klopp lyftir Evrópubikarnum eftir að Liverpool tryggði sér sigur í Meistaradeild Evrópu í júní. AFP

Bókin Klopp Allt í botn, sem fjallar um knattspyrnuferil þjálfarans og fyrrverandi leikmannsins geðþekka Jürgen Klopp, var nýverið gefin út á íslensku af Útgáfunni. Upphaflega kom bókin út á ensku árið 2017 en hefur nú verið þýdd á íslensku auk þess sem bætt hefur verið við kafla um síðustu tvö tímabil Klopp sem knattspyrnustjóra Liverpool.

Höfundur bókarinnar, hinn þýski íþróttafréttamaður Raphael Honigstein, fléttar saman frásagnir ýmissa aðila sem hafa kynnst Klopp á einhvern hátt á lífsleiðinni. Þannig sýnir hann feril Klopps allt frá því hann byrjar fyrst að æfa knattspyrnu sem ungur drengur, byrjar að þjálfa Mainz, gerir Dortmund að Þýskalandsmeisturum og þar til hann gerir Liverpool að Evrópumeisturum í sumar. Honigstein ræðir við Sunnudagsblaðið um helgina.

Kröfuhart ljúfmenni

– Var eitthvað sem kom þér á óvart við Jürgen Klopp?

„Það er erfitt að segja en líklega var það hversu erfitt það var að finna einhvern sem vildi segja eitthvað slæmt um hann. Vanalega í fótboltaheiminum þegar einhver einn hælir einhverjum finnurðu tvo sem segja að hann sé ekkert það frábær, hann sé lygari eða hitt og þetta. Með Jürgen var það nánast ómögulegt. Það var einn sem ég vissi að hefði lent í ósætti við hann, Michael Thurk, sem sættist svo við hann og er í bókinni. Svo var annar sem líkaði ekki við Klopp sem þjálfara sem sagði: „Ég vil ekki vera eini maðurinn í Þýskalandi sem líkar ekki við Jürgen Klopp.“ En þá var það í raun bara taktíkin sem hann var ósáttur við. Það var ekkert persónulegt.“

Þó Klopp virðist ávallt viðkunnanlegur og eigi í góðu sambandi við alla í kringum sig þá er hann mjög kröfuharður við leikmenn og aðra. „Meira að segja þegar ég talaði við hann þegar hann var hjá Dortmund og var ósáttur við eitthvað sem ég gerði sem blaðamaður lét hann mig virkilega finna fyrir því,“ segir Honigstein. „Það getur verið erfitt að vinna með honum í þeim skilningi að hann er ekki að fara að gefa þér neinn slaka. Ef honum finnst þú ekki hafa staðið þig nægilega vel mun hann láta þig vita af því.“

Honigstein segir þetta geta verið erfitt fyrir suma því margir eru þannig gerðir að þeir forðast árekstra og átök. „Á endanum er þetta jákvætt því hann er hreinskilinn og mun aldrei ljúga að þér.“

100% sami náunginn

– Sjáum við hinn sanna Jürgen í fjölmiðlum og á vellinum?

„Ég spurði Gini Wijnaldum [leikmann Liverpool og hollenska landsliðsins] þessarar sömu spurningar. Og hann sagði að allir í Hollandi spyrðu hann að þessu. Allir vilja vita það sama: „Er hann raunverulega svona?“ Og ég get sagt að hann sé 100% sami náunginn. Það er erfitt að þykjast vera eitthvað annað en þú ert á þessu stigi. Fólk kemst að hinu sanna um þig.“

Þó Klopp sýni einungis eina hlið persónuleika síns í sviðsljósinu gerir hann það hvert sem hann fer. Gildir þá einu hvort hann sé að spjalla við myndatökufólk eða verksmiðjustarfsmenn. „Hann hefur þetta jákvæða viðhorf og maður getur ekki annað en hrifist af honum. Ég held að það sé mikilvægur þáttur í þjálfunaraðferð hans. Fólk stendur sig betur ef því líður eins og það sé metið að verðleikum og hér sé maður sem vilji hjálpa því,“ segir Honigstein.

Viðtalið í heild sinni má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »