Kynjakvóta breytt í kvennakvóta

Frá flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Frá flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/​Hari

Samþykkt var á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar að breyta kynjakvóta, sem verið hefur í prófkjörsreglum Samfylkingarinnar um nokkurt skeið, í kvennakvóta. Með breytingunum er aðeins gert ráð fyrir að hlutfall kvenna sé tryggt í efstu sætum framboðslista, en ekki kynjanna eins og áður var.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni þar sem greint er frá því að breytingatillagan hafi verið samþykkt kemur fram að annar flutningsmaður tillögunnar, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, fyrrverandi formaður Ungra jafnaðarmanna, telji að kynjakvótar hefðu verið hugsaðir til að jafna hlut kvenna í stjórnmálum. Þar sem ekki hafi enn náðst jafnvægi milli kynja á Alþingi sé mikilvægt að að huga að tilgangi þeirra, sem hafi ekki snúist um að jafna hlut karla gagnvart konum. Tillagan væri því liður í að sjá til þess að kynjakvótar gegndu áfram sínu hlutverki.

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson

Þá segir jafnframt að með breytingunni verði körlum ekki lengur lyft upp um sæti vegna ákvæða um kynjakvóta, aðeins konum.

Eftir breytinguna munu kvenframbjóðendur hið minnsta skipa annaðhvort fyrsta eða annað sæti paralista og svo annaðhvort næstu sæta og svo koll af kolli og í tilviki fléttulista skal aldrei vera meira en eitt sæti á milli kvenframbjóðenda á framboðslista.

Sem fyrr segir var Þórarinn annar flutningsmaður tillögunnar, en auk hans flutti Sigrún Skaftadóttir tillöguna, en hún er formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.

Breytingatillagan sem samþykkt var á flokkstjórnarfundinum í dag.
Breytingatillagan sem samþykkt var á flokkstjórnarfundinum í dag. Skjáskot
Úr eldri útgáfu prófkjörsregla Samfylkingarinnar.
Úr eldri útgáfu prófkjörsregla Samfylkingarinnar. skjáskot/xs.is



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert