Hafnaði gagnrýni formanns Læknafélagsins

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hafnaði því alfarið í Kastljósi í kvöld að hallarekstur spítalans mætti rekja til stjórnendamistaka eða einhverra handahófskenndra ákvarðana í rekstri spítalans.

„Þetta er bara úr lausu lofti gripið. Ég hafna þessu,“ sagði Páll er hann var spurður út í þá gagnrýni sem Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, setti fram í viðtali við mbl.is á laugardag.

Þar var meðal annars haft eftir Reyni að innleiðing jafnlaunavottunar á spítalanum hefði kostað 320 milljónir króna en því vísaði Páll alfarið á bug og sagði hann Reyni fara með rangindi, þar sem jafnlaunavottunin hefði kostað um 30 milljónir.

Ebba Margrét Magnúsdóttir, formaður læknaráðs Landspítalans, var einnig gestur Kastljóss og hún gerði athugasemdir við skipurit spítalans, sérstaklega ráðningu forstöðumanna sem væru ekki með almennilega skilgreint hlutverk. Hún sagði þó að helsta vandann væri ekki að finna í stjórnun spítalans og vísaði ábyrgð á stöðunni til stjórnvalda.

„Það getur ekki verið eðlilegt að gera kjarasamninga við stéttir og að þeim samningum skuli ekki fylgja fjármagn,“ sagði Ebba Margrét.

Kastljós má sjá í heild sinni á vef RÚV

mbl.is