Horft til áhrifa raforkuvinnslu á umhverfi og samfélag í nýjum samstarfssamningi

Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun; Hörður Arnarson, forstjóri …
Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun; Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar; Ari K. Jónsson, rektor HR, og Ágúst Valfells, forseti verkfræðideildar. Ljósmynd/Aðsend

Landsvirkjun og Háskólinn í Reykjavík hafa endurnýjað samstarfssamning um að efla menntun og rannsóknir á nýtingu endurnýjanlegrar raforku og áhrifum hennar á umhverfi og samfélag.

Samningurinn felur m.a. í sér að Landsvirkjun verður meðal stofnaðila að nýju rannsóknasetri um sjálfbærni við háskólann, sem mun sinna sjálfstæðum rannsóknum á endurnýjanlegri orku og nýtingu hennar, umfram það að horfa einungis á tæknilegan hluta raforkuvinnslu verða viðfangsefni setursins með breiða skírskotun og ganga þvert á fræðasvið háskólans.

Meðal þess sem horft verður til er að mæta alþjóðlegum áskorunum og  loftslagsbreytingum. Þá munu HR og Landsvirkjun standa sameiginlega að aukinni fræðslu og viðburðum á vettvangi sjálfbærnisetursins, að því er segir í tilkynningu frá HR.

Samkvæmt samningnum fær Landsvirkjun aðild að Icelandic Innovation Partners (IIP), samstarfi MIT, HR og valinna fyrirtækja á Íslandi. Aðild að Icelandic Innovation Partners veitir íslenskum fyrirtækjum aðgang að sérfræðingum og námskeiðum hjá MIT, auk aðgengis að gagnagrunni nýsköpunarfyrirtækja sem hafa orðið til upp úr rannsóknum MIT og geta verið virðisaukandi viðbót við starfsemi fyrirtækjanna, segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert