Betur fór en á horfðist í hálkunni

„Þetta er oft svona við birtuskilin, svört hálka sem fólk …
„Þetta er oft svona við birtuskilin, svört hálka sem fólk heldur að sé bleyta en er glæra.“ AFP

„Það var mikil hálka utan stofnleiða, á bílastæðum og á öðrum fáfarnari leiðum. Í morgun voru komin a.m.k. sjö slys en voru þau öll minniháttar eins og liggur fyrir,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil hálka er á höfuðborgarsvæðinu en segir Guðbrandur morguninn hafa farið betur en á horfðist.

„Á Elliðavatnsvegi, sem oft er kallaður Flóttamannaleið, er gríðarleg hálka og veghaldari beðinn um sérstakar hálkuvarnir. Saltari valt þar á hliðina ofan á annan bíl sem sem betur fer var það ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu. Viðkomandi þurfti aðhlynningu en gat gengið. Nú er búið að óska eftir því að vegurinn verði áfram lokaður vegna gríðarlegrar hálku.“ 

„Að öðru leyti virðist þetta hafa farið betur en á horfðist. Þetta er oft svona við birtuskilin, svört hálka sem fólk heldur að sé bleyta en er glæra,“ segir Guðbrandur.

Nú sé mikilvægast að ökumenn fari að huga að því að vetrarbúa ökutæki sín, og að ökumenn, hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur fari varlega við aðstæður sem þessar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert