Segir faglega umræðu sitja á hakanum

Frá fundi í mars þar sem sameining skólanna var rædd.
Frá fundi í mars þar sem sameining skólanna var rædd. Kristinn Magnússon

Lítið hefur borið á tali um gæði og innihald skólastarfs í umræðu um fyrirhugaða lokun Kelduskóla Korpu í norðanverðum Grafarvogi,  en þeim mun meira rætt um sparnað, hugsanlegar breytingar á fasteignaverði og hversu langt foreldrar þurfi að aka börnum sínum í skóla. Þetta segir Páll Grétar Steingrímsson, íbúi í Staðahverfi í Grafarvogi. Hann kallar eftir því að einblínt verði á faglega þætti skólastarfs og að hagur barnanna verði hafður í forgrunni.

Páll Grétar Steingrímsson
Páll Grétar Steingrímsson Ljósmynd/Aðsend

Páll sendi borgarfulltrúum í Reykjavík bréf, þar sem hann bendir á þetta. Sjálfur hefur hann átt þrjú börn í Kelduskóla Korpu og fylgst með þeirri þróun að börnum hafi fækkað þar ár frá ári. Hann viti til þess að foreldrar í hverfinu hafi ákveðið að færa börn sín í aðra skóla, þar sem fámennið í skólanum hafi sett skólastarfinu ýmsar skorður, m.a. hvað varði áhuga kennara á að starfa þar.  

Skrýtin umræða 

Í bréfi sínu bendir Páll á að samráðshópur, sem settur var á stofn í þeim tilgangi að fjalla um hugmyndir um breytingar á skipulagi skólahalds í hverfinu, hafi að mestu leyti verið skipaður fólki með faglega þekkingu á skólamálum, en ekki fólki með þekkingu til að meta fjárhagslegan ávinning af sameiningu skólanna. „Þess vegna er það mjög skrýtið að umræðan skuli helst snúast um krónur og aura þegar í meginatriðum er verið að fara eftir niðurstöðu þessa hóps í tillögum Skóla- og frístundasviðs,“ skrifar Páll í bréfinu. 

„Það hentar hins vegar þeim sem hæst hafa að þvæla umræðunni út í fjármál, eingöngu vegna þess að það er ekki vinningsformúla í umræðum að verðleggja börn og unglinga og velferð þeirra,“ skrifar Páll.

Frá fundi, sem haldinn var með foreldrum í Staðahverfi í …
Frá fundi, sem haldinn var með foreldrum í Staðahverfi í mars þar sem hugmyndir um sameiningar skólanna voru kynntar. Kristinn Magnússon

Áður reynt að koma á fót unglingaskóla

Þær breytingar, sem fyrirhugaðar eru, er að Borgaskóli og Engjaskóli verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk og að Víkurskóli verði sameiginlegur unglingaskóli, fyrir 8. - 10. bekk, á svæðinu.  Í hverjum skóla verða um 260 - 270 nemendur. Skólahald í Kelduskóla Korpu leggst af, a.m.k. tímabundið, en nemendum þar verður boðin skólavist í Engjaskóla og tryggður skólaakstur eða strætókort til frjálsra afnota, eins og þegar hefur komið fram.  

Áður hefur staðið til að koma á fót sameiginlegum unglingaskóla fyrir þessi hverfi, en það hefur ekki gengið eftir. Nýi unglingaskólinn á að verða svokallaður nýsköpunarskóli þar sem stefnan er að leggja sérstaka áherslu á frumkvæði nemenda, frumkvöðlanám, sköpun og gagnrýna hugsun.

Erum að tala um velferð barna

Páll segir að umræðan hafi í allt of miklu mæli snúist um hvað þessi breyting sé erfið fyrir foreldra, en minna um hvað þetta þýði fyrir börnin sjálf. „Við erum að tala um velferð barna, það er auðveldlega hægt að leysa það verkefni að koma börnum til og frá skóla, en það er talsvert meira mál að halda úti faglegu og metnaðarfullu skólastarfi,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert