Bar að upplýsa Atla Rafn um ásakanirnar

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Farið er hörðum orðum um framgöngu Borgarleikhússins (Leikfélags Reykjavíkur) og Kristínar Eysteinsdóttur leikhússtjóra í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun þar sem leikhúsið og Kristín voru dæmd til þess að greiða Atla Rafni Sigurðarsyni leikara 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón í málskostnað vegna uppsagnar hans fyrir tveimur árum.

Til uppsagnarinnar kom í kjölfar ásakana sem bárust Kristínu um kynferðislega áreitni af hálfu Atla Rafns. Hins vegar kemur fram í dómnum að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu um það hvenær umædd atvik áttu sér stað eða hvers eðlis umræddar ásakanir voru. Enn fremur hafi ekki verið staðið rétt að uppsögninni í samræmi við lög og reglur.

Vísað er til þess að ákvæði reglugerðar 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, miði að því „að vernda hvort tveggja þá aðila sem bera fram kvörtun og þá sem kvörtun beinist að“ og að þær röksemdir Borgarleikhússins og Kristínar um að reglugerðinni sé einkum ætlað að vernda hagsmuni þolenda eigi ekki stoð í henni og eigi þannig ekki við rök að styðjast.

Meðal annars hefði Borgarleikhúsinu og Kristínu borið að gefa Atla rafni kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að því búnu gera ráðstaranir til þess að stöðva hegðunina, hafi hún átt við rök að styðjast, sem og að koma í veg fyrir að hún endurtæki sig. Til þess að Atli Rafn gæti komið sjónarmiðum sínum á framfæri hefði þeim enn fremur borið að upplýsa hann um það hvers eðlis ásakanirnar væru og sömuleiðis gefa honum kost á að breyta hegðun sinni ef um það væri að ræða.

Atli Rafn Sigurðsson leikari. mbl.is/Árni Sæberg

Þetta hafi hins vegar ekki verið gert af hálfu Borgarleikhússins og Kristínar. „Trúnaður gagnvart viðkomandi einstaklingum getur ekki leitt til þess að réttarstaða stefnanda verði á neinn hátt lakari en hér hefur verið lýst. Ekki var farið eftir reglunum og engin gögn liggja fyrir í málinu um það hvenær atvik áttu sér stað eða hvers eðlis umræddar ásakanir voru,“ segir í dómsorði.

Enn fremur segir að Borgarleikhúsinu og Kristínu hafi mátt vera ljóst að beiting svo alvarlegra úrræða og að segja Atla Rafni fyrirvaralaust upp „á ófullnægjandi grundvelli“ væri til þess fallin að valda honum tjóni.

„Verður ekki talið að stefndu hafi við meðferð málsins sýnt þá háttsemi sem ætlast verður af atvinnurekendum þegar upp koma mál af slíkum toga og mælt er fyrir í reglugerð nr. 1009/2015. Er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið farið að lögum þegar stefnanda var sagt upp störfum,“ segir sömuleiðis.

Þá segir að Kristínu hafi mátt vera ljóst að framganga hennar við meðferð málsins myndi hafa mikil áhrif á orpspor, starfsheiður og umtal um Atla Rafn og valda honum tjóni. Verði að virða henni það til sakar þannig að hún beri sameiginlega ábyrgð á tjóni hans. Ljóst sé að ákvörðunin hafi haft mikil áhrif á Atla Rafn og kunni að hafa áhrif á líf hans og störf til lengri tíma litið.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is