„Það kreistir enginn tár úr steini“

Halldór er ósáttur með niðurstöðu kosninganna en virðir hana jafnframt.
Halldór er ósáttur með niðurstöðu kosninganna en virðir hana jafnframt. mbl.is/​Hari

„Ég harma þessa niðurstöðu. Verkföll valda alltaf tjóni og það liggur í augum uppi að boðaðar vinnustöðvanir muni ekki auka getu þessara fyrirtækja til að standa undir launahækkunum og kjarabótum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um niðurstöður kosninga um vinnustöðvanir blaðamanna. Vinnustöðvanir voru samþykktar á sjötta tímanum í dag. 

Halldór segir að Samtök atvinnulífsins muni ekki víkja frá sinni launastefnu. 

„Samtök atvinnulífsins hafa nú þegar samið við 95% allra á almennum vinnumarkaði út frá lífskjarasamningnum og tilboð Samtaka atvinnulífsins til Blaðamannafélags Íslands er í fullu samræmi við þá samninga sem þessi 95% hafa nú þegar samþykkt í atkvæðagreiðslu. Það tilboð endurspeglar skýra launastefnu Samtaka atvinnulífsins og frá henni verður ekki kvikað. Menn ættu að sjá í hendi sér að þeim árangri verði ekki teflt í tvísýnu með samningum sem ganga í berhögg við lífskjarasamninginn.“

Halda áfram að reyna

Fyrsta vinnustöðvun er boðuð á föstudaginn í næstu viku. Spurður hvort Samtök atvinnulífsins muni reyna að semja við Blaðamannafélag Íslands áður en verkföllin fara af stað segir Halldór:

„Við leggjum alltaf áherslu á að eiga gott samtal við okkar viðsemjendur og að sjálfssögðu munum við funda og reyna að finna flöt á lausn í málinu en það kreistir enginn tár úr steini.“

Halldór gerir ráð fyrir að ríkissáttasemjari muni boða til fundar og vera í sambandi við deiluaðila á næstu dögum.

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert