„Ég er alltaf vongóður“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/​Hari

„Viðræður og umleitanir halda áfram,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um kjaradeilu SA og Blaðamannafélags Íslands. Að óbreyttu fer hluti blaðamanna í fjögurra stunda verkfall á föstudaginn og frekari verkföll eru áætluð í framhaldinu.

„Við höfum verið í sambandi við Hjálmar [Jónsson, formann Blaðamannafélagsins] og samninganefndina. Deilan er á forræði Ríkissáttasemjara, sem hefur ekki boðað nýjan fund enn. Við sjáum hvað gerist í vikunni,“ segir Halldór Benjamín. 

Hjálmar Jónsson sagði fyrr í dag að það væri engin ástæða til að boða til fundar nema atvinnurekendur væru tilbúnir að bjóða að minnsta kosti það sama og þeir hafi boðið öðrum. Halldór Benjamín segir SA hafa boðið Blaðamannafélaginu sama samning og öðrum viðsemjendum sínum:

„Samtök atvinnulífsins hafa samið við verkalýðsfélög sem fara með umboð tæplega 120 þúsund launþega og þeir launþegar hafa allir fengið lífskjarasamninginn með einum eða öðrum hætti. Hann markar launastefnu og samningsforsendur Samtaka atvinnulífsins og það er það sem við ræðum við Blaðamannafélagið og bjóðum þeim þann samning að sjálfsögðu, eins og öllum öðrum okkar viðsemjendum.“

Eins og áður sagði fer hluti blaðamanna að óbreyttu í fjögurra stunda verkfall á föstudaginn en Halldór segir að það sé alltaf von á meðan fólk talar saman:

„Við höfum nokkra daga til stefnu. Ég er alltaf vongóður.“

Tekið skal fram að blaðamaður og flest­ir aðrir blaðamenn á rit­stjórn mbl.is og Morg­un­blaðsins eru fé­lag­ar í Blaðamanna­fé­lagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert