Myndir af krúttlegum dýrum hafa áhrif á sálarlíf

Hundarnir og söguhetjur bókarinnar eru nokkuð ánægðir með útkomuna.
Hundarnir og söguhetjur bókarinnar eru nokkuð ánægðir með útkomuna. Ljósmynd/Aðsend

„Það var leiðinlegt þegar hann féll frá, blessaður,” segir Ásrún Magnúsdóttir um blinda lundann Munda sem er allur. Nú hefur hún skrifað barnabók í minningu Munda sem nefnist Ævintýri Munda lunda og er nýkomin út. Mundi rataði í hendur Ásrúnar fyrir hartnær tveimur árum eftir að hann fannst illa vankaður í veg­kanti Sæbrautar í Reykja­vík.   

Vinkona Ásrúnar fann lundann rotaðann með brotinn gogg og hringdi samstundis í Ásrúnu, vitandi vits að hún er mikil dýravinur. Ásrún tók strax ástfóstri við lundanum, kom honum undir hendur dýralæknis, hjúkraði, fæddi og veitti skjól. Mundi braggaðist ágætlega eftir höfuðhöggið sem hann hlaut um árið þó hann hafi aldrei fengið sjón. 

„Grunað að hann hafi verið kominn á aldur“

„Við vitum ekki alveg hvað það var. Mig grunaði að hann hafi verið kominn á aldur en við vissum aldrei hvað hann var gamall,“ segir Ásrún um dauða Munda.

Hundarnir Flækja og Spotti skoða Munda lunda þegar hann fær …
Hundarnir Flækja og Spotti skoða Munda lunda þegar hann fær sér góðan sundsprett úti í potti. Ljósmynd/Aðsend

„Það er öðruvísi núna að hafa hann ekki heima. Þetta var gott rúmt ár sem hann var hjá okkur. Hann hafði einkasundlaug og fékk loðnumáltíð þrisvar á dag. Ég spjallaði mikið við hann. Hann þekkti mig alltaf þegar ég kom heim og vappaði í átttina að mér enda hafði hann matarást á mér. Þegar ég kallaði á hann kom hann hlaupandi. Hann var ekki alveg eins sáttur við kærastann minn og hafði ekki mikla þolinmæði fyrir honum þegar hann hélt á honum því hann beit hann. Mundi var mikill karakter og miklu meiri en maður gerði sér grein fyrir í upphafi,“ rifjar Ásrún upp.  

Mundi var enginn venjulegur lundi. Hann var með Facebook og Instagram-síðu þar sem um sjö þúsund fylgjendur forvitnuðust um líf hans. Ásrún gefur út bókina líka á ensku ekki síst fyrir útlenska fylgjendur Munda sem voru duglegir að skoða myndir af honum. „Það er ótrúlegt hvað myndir af krúttlegum dýrum geta haft áhrif á sálarlíf fólks,“ segir Ásrún. 

Ásrún kveðst alltaf hafa verið mikið fyrir dýr og verið gjörn á að taka að sér dýr sem höfðu fundist og enginn gengist við. Spurð hvort hún sé farin að leita að öðrum fiðruðum félaga til að hafa heima hjá sér segir hún að svo virðist sem dýrin finni hana. „Ég fann svartþröst sem var rétt við dyrnar heima hjá okkur fyrir skömmu. Hann var hjá okkur i tvær vikur eða þangað til flugfjaðrirnar komu aftur á hann og þá gátum við sleppt honum. Það er alltaf skemmtilegt þegar maður getur sleppt dýrunum aftur út í náttúruna,“ segir hún. 

Dýrin taka upp á ýmsu þegar eigendur eru ekki heima

En víkjum aftur að barnabókinni sem segir frá ævintýrum Munda ásamt hundunum Flækju og Spotta og kettinum Óliver. „Það var áhugarverð áskorun að skrifa um blinda söguhetju,“ segir Ásrún. Mundi þarf að vara sig á kettinum Óliver sem reynir sífellt að klófesta hann en hundurinn Spotti er duglegur að passa hann og bralla ýmislegt með Munda þegar eigendur þeirra eru ekki heima. Sagan er lauslega byggð á raunveruleikanum og verða lesendur að bókarinnar sjálfit að kanna hvort Mundi sé lífs eða liðinn í lok bókarinnar.  

Ásrún Magnúsdóttir er ánægð með nýjustu bókina sína Ævintýri Munda …
Ásrún Magnúsdóttir er ánægð með nýjustu bókina sína Ævintýri Munda lunda sem kemur út bæði á íslensku og ensku. Ljósmynd/Aðsend

Verkið er þriðja barnabók Ásrúnar en hinar tvær eru um ærslabelginn Korku. Á næstunni er einnig væntanleg ljóðabókin Hvuttasveinar úr hennar smiðju. Hún segir frá hundum jólasveinanna sem eru víst býsna uppátækjasamir og gefa jólasveinunum víst ekkert eftir. Ásrún sækir innblástur til Jólasveinavísna Jóhannesar úr Kötlum.   

Ævintýri Munda lunda koma einnig út á ensku og sá höfundur sjálfur um að snara yfir á enska tungu en Ásrún er enskukennari við menntaskóla. Iðunn Arna er myndskreytir og bókin kemur út hjá Bókabeitunni en þess má geta að konur komu að öllum þáttum útgáfunnar.   

Munda líkaði vel við eiganda sinn hana Ásrúnu.
Munda líkaði vel við eiganda sinn hana Ásrúnu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert