Fær fjórar vikur til að greiða 36 milljóna sekt

Manninum er gert að greiða 36,1 milljón króna í sekt, …
Manninum er gert að greiða 36,1 milljón króna í sekt, ella sæta fangelsi í 12 mánuði. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Vesturlands hefur dæmt útgerðarmann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða rúmlega 36 milljóna króna sekt til ríkissjóðs vegna meiri háttar brota gegn bókhalds- og skattalögum og fyrir peningaþvætti. Maðurinn játaði brot sín skýlaust.

Dómur var kveðinn upp á fyrsta degi þessa mánaðar. Í dómsorði segir að greiði maðurinn ekki sektina innan fjögurra vikna verði honum gert að sitja í fangelsi í 12 mánuði.

Ákæran var í þremur liðum. Í fyrsta lagi var maðurinn ákærður fyrir rangfært bókhald eigin útgerðarfélags með því að gefa út ranga kreditreikninga á hendur fiskútflutningsfyrirtækinu Sæmarki-Sjávarafurðum, í þeim tilgangi að taka fjármuni úr félaginu í eigin þágu.

Sæmark-Sjávarafurðir er fyrirtæki Sigurðar Gísla Björnssonar, sem hefur verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara vegna mjög umfangsmikilla skattalagabrota. Fram kom í úrskurði héraðsdóms sem varðaði haldlagningu fjármuna í tengslum við rannsóknina sumarið 2018 að ætluð brot beindust að vantöldum skattstofni áranna 2011-2016 sem næmi 1,3 milljörðum króna.

Einnig var maðurinn ákærður fyrir að hafa skilað inn efnislega röngum skattframtölum árin 2013, 2014 og 2015. Samanlagt lét hann undir höfuð leggjast að telja fram rúmar 44,5 milljónir króna.

Hluti vanframtalinna tekna mannsins var í formi notkunar hans á erlendu kreditkorti sem var í eigu Sigurðar Gísla og skráð á félagið Freezing Point Corp., sem var í Panamaskjölunum, samkvæmt frétt RÚV um niðurstöðu þessa dóms.

Maðurinn var svo ákærður fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa nýtt ávinning sinn af skattalagabrotunum, rúmar 20,6 milljónir króna, í eigin þágu. Hann játaði brot sín, sem áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert