„Maðurinn bókstaflega bjargaði mér“

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og áhugamanna
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og áhugamanna mbl.is/​Hari

Fyrrverandi fangar fjölluðu um hvað bíður þeirra þegar afplánun lýkur í morgunkaffi velferðarráðs Reykjavíkurborgar í morgun. Stuðningur skiptir þar gríðarlega miklu máli og Þorlákur Ari Ágústsson, fyrrverandi fangi lýsti því hvernig maður sem hann kynntist í meðferð fyrir afplánun hafi bókstaflega bjargað honum. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef þessi maður hefði ekki birst í lífi mínu, segir hann.

Þorlákur Ari er 25 ára í dag og hefur verið edrú frá því í afplánun en hann var tvítugur þegar hann fór í fangelsi. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nokkur brot en var fyrst í gæsluvarðhaldi. Hann var ekki sakfelldur fyrir það brot og segir Þorlákur að það hafi verið mjög erfitt að vita ekki hversu löng fangavist biði hans þegar hann var settur inn. Hann hafi vitað lítið út í hvað hann var kominn og var skíthræddur. 

Hann var sendur á Litla-Hraun og hafði lítil plön önnur en að vinna í sínum málum. Einn daginn var komið að máli við hann og honum boðið að fara á Vernd. 

Að sögn Þorláks vissi hann ekki meir þar sem eitt af skilyrðum fyrir dvöl þar er að vera í virkni, vinnu, skóla eða einhverju sambærilegu. Ég var götustrákur og hafði aldrei unnið, segir hann. Fyrst fór hann sem sjálfboðaliði á kaffistofu Samhjálpar og fékk framfærslu frá sveitarfélaginu en hann skuldaði háar fjárhæðir í sakarkostnað og meðlag á þessum tíma. 

Krafðir um sakavottorð

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, segir að það séu fjögur atriði sem skipta fanga máli þegar afplánun lýkur. Atvinna, heimili, fjármál og fjölskylda. Þegar fangar koma út úr fangelsi eru þeir í flestum tilvikum allslausir, hvorki með meðmæli né reynslu þannig að það er mjög erfitt að fá fyrir þá að fá vinnu. Undantekningarlaust þurfa þeir að sýna sakarvottorð og að sögn Guðmundar eru það helst ríki og sveitarfélög sem fara fram á sakarvottorð og skiptir engu hvert starfið er.

Velferðarkaffi hjá Velferðarráði.
Velferðarkaffi hjá Velferðarráði. mbl.is/​Hari

Guðmundur segir að fangar séu oft með miklar skuldir á bakinu og þegar þeir fara út á vinnumarkaðinn getur verið að allt að 60% af laununum séu dregnir af þeim, svo sem sakarkostnaður og meðlög. Þetta getur dregið úr áhuga á að vinna og því leita þeir í svarta vinnu sem endar í hring – neysla og glæpir og aftur í fangelsi, segir Guðmundur. 

Fangar sem fara á Vernd þurfa að greiða leigu, rúmar 75 þúsund krónur á mánuði. Þeir þurfa að fara að vinna til að greiða leiguna og þrátt fyrir að hafa verið í námi í fangelsi verða þeir oft að hætta því til að geta greitt leiguna. 

„Mitt mat er að þeir geti klárað nám í fangelsum,“ segir Guðmundur og leggur til að þar verði boðið upp á styttra nám, svo sem verknám,  sem er sérstaklega hannað fyrir fanga. Þegar afplánun lýkur getur viðkomandi farið beint út á vinnumarkaðinn

Margir fangar eru húsnæðislausir þegar afplánun lýkur og oft fer hann á sófann – sem er oft kallaður skiptimiði - segir Guðmundur og vísar til þess að oft líður stuttur tími þangað til neysla og glæpir hefjast að nýju. Að vera á sófanum er að gista hjá vinum og ættingjum.

Hvað með fangablokk?

Að sögn Guðmundar þarf ekki bara að sýna sakarvottorð þegar sótt er um vinnu heldur einnig þegar sótt er um þegar fólk leigir húsnæði. „Nánast í hverri viku hringt í okkur hjá Afstöðu og við beðin um aðstoð,“ segir Guðmundur.

Hann segir að Afstaða hafi rætt um að byggja sérblokkir fyrir fyrrverandi fanga en komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki gott. Sennilega ekki margir sem vilja búa í fangablokkinni ekki síst barnafólk.

Flestir skulda sakarkostnað skatta og meðlög þegar afplánun lýkur. Getur tekið 12 ár að hreinsa sig af listum Creditinfo.

Okkur finnst að sveitarfélögin þurfi að koma meira inn í þessi mál. Þeim ber að framfleyta fólki sem ekki getur það sjálft ekki bara mál ríkisins. Fangelsismálastofnun ber ekki ábyrgð á að framfleyta föngum og í raun og veru væri tilvalið fyrir sveitarfélögin að koma meira inn þegar kemur að styrkjum,“ segir Guðmundur. 

Þorlákur Ari Ágústsson málari og Dögg Hilmarsdóttir, félagsráðgjafi hjá meðferðarsviði …
Þorlákur Ari Ágústsson málari og Dögg Hilmarsdóttir, félagsráðgjafi hjá meðferðarsviði Fangelsismálastofnunar, voru með erindi í velferðarkaffi velferðarráðs. mbl.is/​Hari

Þorlákur segir að í hans tilviki var það þannig að þessi maður, sem var gamall kunningi mömmu hans, hafi bjargað honum. Þegar afplánun lauk aðstoðaði hann Þorlák við að fá vinnu og að sækja um aðstoð. Framfærslu og annað. 

Allt slíkt hafi verið of flókið fyrir hann en þessi maður hafi tekið honum sem syni.

„Ef þessi maður hefði ekki birst í lífi mínu væri ég væntanlega einn af þessum 80% sem fara aftur austur á Litla-Hraun,“ segir Þorlákur. 

Hann fór í nám með vinnu en alltaf beðinn um sakarvottorð og enginn vildi ráða hann þannig að hann fór aftur að mála og er að ljúka því námi á næsta ári.

Þorlákur segir að það þurfi að gera virkilega mikið í þessum málum, það er hvað bíði að lokinni afplánun og segir að margir sem hann þekki hafi endað inni í fangelsi að nýju þar sem þeir fá hvergi inni. Vetra að vera á Litla-Hrauni en á götunni því þar færðu húsaskjól og mat.

Bætt við klukkan 14:15 - þessi frétt er framhald af þessari en ekki tókst að ljúka við hana fyrir klukkan 10 þegar verkfall blaðamanna á mbl.is hófst. 

Velferðarkaffi hjá Velferðarráði.
Velferðarkaffi hjá Velferðarráði. mbl.is/​Hari
mbl.is