Hreindýrin veidd þrátt fyrir friðun

Hreindýr í kafaldsbyl á Fljótsdalsheiði. Mynd úr safni.
Hreindýr í kafaldsbyl á Fljótsdalsheiði. Mynd úr safni.

„Mér hefur alltaf fundist hreindýr vera fönguleg dýr, en það kom mér á óvart hvað þetta efni var miklu skemmtilegra en ég hélt og sagan var mun áhugaverðari en ég taldi áður,“ segir Unnur Birna Karlsdóttir, höfundur bókarinnar Öræfahjörðin.

Í bókinni Öræfahjörðin  — Saga hreindýra á Íslandi, sem Sögufélagið gefur út, er rakin saga frá því að fyrstu dýrin voru flutt hingað til lands frá Noregi á 18. öld. Sú saga er á köflum blóðug og lífsbaráttan hörð. Þannig var hundum sigað á hreindýr, þau voru jafnvel voru veidd með hnífinn einan að vopni, dæmi voru um að tarfar beitt hornum sínum gegn bændum um fengitímann og í Vestmannaeyjum runnu dýrin á svelli fyrir björg.

Unnur Birna segist í samtali við mbl.is ekki vera veiðimaður sjálf og að upphaf bókarinnar megi rekja til  þess að hún starfaði sem safnstjóri Minjasafns Austurlands. „Þar setti ég upp sýningu um hreindýrin á Austurlandi sem stendur enn hér í Safnahúsinu,“ segir hún. Sú sýning var opnuð árið 2015 og fékk Unnur Birna í framhaldi rannsóknarstöðu við Háskóla Íslands, sem fól í sér að rannsaka sögu hreindýra og lítur afrakstur þeirrar vinnu nú dagsins ljós með bókinni.

Kynntist heilmiklu af skemmtilegu fólki

Unnur Birna segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart við vinnuna hversu mikið sé til af heimildum um hreindýr frá fyrri tíð. Náttúrstofa Austurlands hafi til að mynda reynst sér vel og hún hafi notið góðs af því að fá að nota ljósmyndir frá Skarphéðni Þórissyni hreindýrasérfræðingi.

„Svo var það samfélagið hér fyrir austan. Maður fékk ábendingar og ráð og fólk lánaði myndir og alls konar,“ segir hún. „Þannig að ég kynntist heilmiklu af skemmtilegu fólki í tengslum við þessa rannsókn.“

Unnur Karlsdóttir höfundur Öræfahjarðarinnar segir sögu hreindýranna hafa reynst mun …
Unnur Karlsdóttir höfundur Öræfahjarðarinnar segir sögu hreindýranna hafa reynst mun áhugaverðari en hún taldi í fyrstu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kveðst Unnur Birna raunar ekki hafa komið fyrir öllu því efni sem hún hafði úr að moða við skrifin. „Það væri því mögulega hægt að taka ýmsa þætti og fjalla um þá áfram,“ bætir hún við og segir þennan þátt sambýlis manns og náttúru hér á landi mögulega ekki hafa verið mikið í sviðsljósinu til þessa. Austfirðingar þekki þá sögu þó líklega öðrum landsmönnum betur.

Hörð samkeppni um beitilönd

Tæp 60 ár eru nú frá því síðasta íslenska bókin um Hreindýr kom út, en það er bók Ólafs Þorvaldssonar Hreindýr á Íslandi. Þar áður, árið 1945, kom út bókin Á hreindýraslóðum eftir Helga Valtýsson sem Unnur Birna vísar töluvert í í skrifum sínum og það gerir raunar líka Andri Snær Magnason í bók sinni Um tímann og vatnið. Unnur Birna samsinnir því líka að það hafi alveg verið kominn tími á nýja bók um hreindýrin.

Íslensku hreindýrin eru afkomendur taminna hreindýra sem voru flutt frá Finnmörku í Noregi hingað til lands á 18. öld og eru rúmlega 5.000 talsins í dag.  Hér á landi voru  þau sett niður á Reykjanesi, í Þingeyjasýslu í Eyjafirði og svo voru þau í nokkur ár í Fljótshlíð. Dýrin dóu hins vegar út alls staðar nema á Austurlandi.

Spurð hvers vegna þetta hafi verið segir Unnur Birna að á Reykjarnesi sé kenningin sú að of mikið hafi verið um veiðar og samkeppni um beitilöndin hörð. „Það er ekki vitað hvað varð um síðustu dýrin í Þingeyjasýslu, en ein kenningin var að þau hefðu farið austur. Það verður þó að teljast langsótt og í raun ekkert sem styður það,“ segir hún og bætir við að kenning hafi líka verið uppi um að dýrin hafi verið veidd.

Umkringd eftir eltingaleik hunda

Í Öræfahjörðinni er að finna frásagnir af veiðum fyrri alda og  þættu mörgum þær lýsingar eflaust hrottalegar í dag. „Þegar veiðimennirnir komu auga á hreindýraflokk, siguðu þeir hundunum á dýrin og hvöttu þeir þá sem mest máttu,“ segir í frásögn Jóhannesar Friðlaugssonar Hreindýraveiðar í Þingeyjarsýslu á 19. öld.  Er því síðan lýst hvernig dýrið var umkringt að loknum eltingaleik af bæði hundum og mönnum með hníf í hönd.

Hreinkálfur lítur tilveruna stórum augum. Mynd úr safni.
Hreinkálfur lítur tilveruna stórum augum. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

„Svona var þetta miðað við frásagnir,“ segir Unnur Birna. „Þegar menn voru að byrja á hreindýraveiðum þá höfðu þeir ekki langdræg skotvopn eins og eru til í dag og fólk nýtti það sem það hafði til að mynda hnífa og annað.“

Hún bætir við að hreindýrin hafi líka verið kærkomin búbót á þessum tíma. „Það þótti sjálfsagt að veiða þau þegar þau náðust og menn beittu vondum aðferðum og vissu það alveg stundum, en beittu þeim samt af því að það var það eina sem þeir gátu gert til að ná sér í mat. Maður heyrir alveg í sumum þessara gömlu veiðisagna að menn hefðu alveg viljað geta haft þetta öðruvísi.“

Veidd þrátt fyrir friðun

Að sögn Unnar Birnu voru hreindýrin líka allt frá upphafi álitin veiðibráð. „Það komu nokkur tímabil þar sem þau voru friðuð og þau voru til dæmis alfriðuð frá 1900-1940, fyrir utan stutt tímabil þegar endurnýja þurfti friðunarlögin. Þeim fækkaði samt þá og voru veidd þrátt fyrir friðunina.“ Hreindýr hafi til að mynda hafa dáið út á Reykjanesi og í Þingeyjasýslu á tímabili þar sem þau voru alfriðuð.

„Þau voru friðuð án þess að það væri eftirlit með friðunarlögunum,“ segir hún og bætir við að ekki hafi endilega verið auðvelt að koma eftirliti við á hálendinu á þessum tíma. „Eftir 1940 var síðan hinu svo kallaða hreindýraeftirliti komið á fót og síðan þá hefur verið eftirlit með hreindýrum og hreindýraveiðum, veiðastýringu og stofnstærð.“

Líffræðilega sjálfbær stofn og sambýlið betra

Í dag er stofninn að sögn líffræðinga líka sjálfbær. „Það er ekki veitt meira en stofninn þolir, en þó er veitt upp að því marki að beitarlandið þoli stærð stofnsins og sambýli við aðra landnýtingu á borð við sauðfjárbúskap,“ segir Unnur Birna.

„Þetta eru hraust dýr og þrífast vel,“ bætir hún við og hefur eftir líffræðingum að hálendi Austurlands henti dýrunum vel. „Norskir líffræðingar sem hafa nú í haust verið að rannsaka heilsufar hreindýra á Íslandi hafa líka haft orð á því hvað þau séu hraust og að í þeim finnist ekki þessir sjúkdómar sem til dæmis er verið að glíma við í villtu hreindýrunum í Noregi.“

Sambýli bænda og hreindýra er líka betra en áður var. „Sauðfjárbúskapur er minni en var og svo eru bændur líka löngu hættir að þurfa að treysta á vetrarbeit fyrir afkomu sína.  Það er helst að hreindýr skemmi  fyrir mönnum varðandi  skógrækt eða mögulega girðingar,“ segir Unnur Birna. „Það getur líka alltaf orðið einhver smánúningur, en það er ekkert miðað við hvað þetta var viðkvæmt sambýli hér áður fyrr.“

mbl.is