Býðst til að búa í Húsdýragarðinum

„Þau eru sett í búr svo fólk geti horft á …
„Þau eru sett í búr svo fólk geti horft á þau allan liðlangan daginn.“ mbl.is/Valli

Ung kona hefur boðið sig fram til að búa í Húsdýragarðinum í nokkra daga til þess að sýna fram á hvernig það er í raun og veru fyrir spendýr að lifa eins og dýrin í garðinum. Hún segist þá gætu talað fyrir hönd dýranna, þar sem þau geti það ekki sjálf.

Elma Lára Auðunsdóttir vakti athygli á málefnum Húsdýragarðsins á hópnum Vegan Ísland á Facebook á dögunum og hvatti hópverja til að skilja eftir umsagnir á vef garðsins. 

Í kjölfar færslu Elmu Láru tóku umsagnirnar, sem voru ekki margar fyrir, að hrannast inn. Umsagnirnar voru aðallega neikvæðar en svo virðist sem fjöldi fólks hafi, í kjölfar umfjöllunar mbl.is, ákveðið að taka upp hanskann fyrir garðinn og skilja eftir góðar umsagnir.

Sýningargripir til skemmtunar mannfólki

mbl.is hafði samband við Elmu Láru til þess að spyrjast fyrir um ástæður þess að hún ákvað að vekja athygli á aðbúnaði dýra í garðinum. „Mér finnst ótrúlegt að höfuðborgin okkar Reykjavík haldi villtum dýrum við óviðunandi aðstæður og fjarri þeirra náttúrulegu heimkynnum,“ segir Elma Lára í skriflegu svari við fyrirspurnum blaðamanns. 

Elma Lára Auðunsdóttir.
Elma Lára Auðunsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Elma Lára segist ekki vera sérstaklega á móti Húsdýragarðinum heldur dýragörðum almennt og tekur sérstaklega fram að starfsemi fjölskyldugarðsins sé frábær og hún hafi ekkert út á hana að setja. Hún hafi viljað vekja athygli á því hversu siðlaust það væri að nota dýr sem sýningargripi einungis fyrir skemmtun mannfólks.

Fangar fá skjól og mat en það þýðir ekki að þeir séu frjálsir

„Fólk þarf að kynna sér betur tilfinningar dýra og hvaða áhrif það hefur á dýr að vera læst inni á litlu svæði allt sitt líf. Það er eins og sumir fatti ekki að önnur dýr hafi tilfinningar rétt eins og við mannfólkið og telja sig þess vegna æðri öðrum dýrum,“ segir Elma Lára. Af þessum sökum hefur hún boðið sig fram til að búa í Húsdýragarðinum um stund.

„Af hverju er ásættanlegt að halda dýrum innilokuðum allt sitt líf undir okkar reglum á meðan það er augljóslega talið siðlaust að gera hið sama við mannfólk? Sum dýrin fá að fara út inn á milli en fangar fá líka að fara út í einhverja klukkutíma á dag. Það þýðir samt ekki að þeir séu ekki fangar lengur. Það er ekki hægt telja sér trú um að dýrin í garðinum líði hvorki ógn né skort þótt þeim sé gefið mat og skjól. Fangar fá skjól og mat en það þýðir ekki að þeir séu frjálsir.“

Loks segist Elma Lára átta sig á því að ekki sé hægt að loka garðinum og sleppa dýrunum út í náttúruna. „Að sjálfsögðu er ekki bara hægt að sleppa dýrunum þar sem þau hafa verið rænd sínu náttúrulega eðli og vita þess vegna ekki hvernig á að lifa af í villtu náttúrunni eins og þeim var ætlað. Þess vegna væri best að gera garðinn að verndarstað þar sem dýrin sem eru nú í garðinum væru seinustu dýrin sem tekin hafa verið inn sem sýnisgripir.“

Kannast við að hafa fengið bréf

Framkvæmdastjóri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, Þorkell Heiðarsson, kannaðist við að garðinum hefði borist bréf vegna dvalarbeiðnar. Hann hyggst þó ekki tjá sig frekar við fjölmiðla vegna málsins.

mbl.is