Játaði að hafa nauðgað unnustu sinni

Maðurinn var dæmdur fyrir að nauðga þáverandi unnustu sinni.
Maðurinn var dæmdur fyrir að nauðga þáverandi unnustu sinni. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi, þar af 21 mánuð skilorðsbundinn, fyrir að nauðga konu sem þá var unnusta hans. Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að játning mannsins og iðrun sem hann hafi sýnt við meðferð málsins sé honum til refsimildunar.

Maðurinn notfærði sér að konan gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar og misnotaði gróflega ástand konunnar og þær aðstæður sem voru uppi, að því er fram kemur í dómnum.

Maðurinn var eins og áður segir dæmdur í tveggja ára fangelsi, þar af er 21 mánuður skilorðsbundinn. Er það rökstutt með játningu mannsins og því að meðferðin hafi dregist um tvö ár, án þess að hægt sé að kenna manninum um það.

Auk þess var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

mbl.is