„Spillingarbæli“ eða óþarfa dramatík?

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég óttast að Ísland sé að teiknast upp sem spillingarbæli í augum umheimsins,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun. Hann og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tókust harkalega á þegar þingmenn ræddu mál Samherja á þingi.

Logi benti til að mynda á veru Íslands á gráa listanum, Panamaskjölin og að rúm tíu ár væru frá hruni. Hann sagði að Samfylkingin hefði ítrekað varað við því þegar gríðarlegur auður safnast á fáar hendur.

„Nú er eitt fyrirtæki að rústa orðspori Íslendinga, ef sakir reynast sannar,“ sagði Logi. Hann spurði Bjarna hvort hann hefði ekki áhyggjur af málinu. Auk þess spurði Logi hvort Bjarni gæti hugsað sér að aukið fé yrði lagt til skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara til að upplýsa um málin.

Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.
Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin innistæða fyrir þessum orðum

Bjarni sagði að það væri alvarlegt mál þegar formaður stjórnmálaflokks teldi það rétta lýsingu á landinu að því sé líkt við spillingarbæli. „Ég tel að það sé engin innistæða fyrir svona dramatískum orðum,“ sagði Bjarni og bætti við að þetta væri með ólíkindum hjá Loga.

Hann sagði að málið yrði auðvitað tekið alvarlega og viðeigandi stofnanir myndu rannsaka það. 

Ráðherra sagði enn fremur að sýn umheimsins á Ísland og okkur Íslendinga ráðist ekki af svona málum heldur hvernig við tökum á þeim; hvort við tökum þau alvarlega. 

„Ekki af einhverjum ótrúlegum útleggingum Samfylkingarfólks um að rót vandans liggi í fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ sagði Bjarni. Hann sagðist að sjálfsögðu hafa áhyggjur af málinu og af orðsporinu. Eftirlitsstofnanir fái aukið fé ef þær þurfa það. 

Sagði Sjálfstæðisflokk alltaf nálægt svona málum

„Einstökum svona málum?“ spurði Logi og beindi orðum sínum til Bjarna. Hann sagði að á áratug hefðum við upplifað efnahagshrun, Panamaskjölin, veru á gráum lista, vafningsskjölin, Samherjaskjölin og fleiri mál. 

Logi sagði að honum þætti vænt um að auknu fé yrði varið til að upplýsa um málið.

„En mér þykir með ólíkindum að fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra komi hér upp og drepi málinu á dreif og ásaki einn stjórnmálaflokk um að taka málið alvarlega,“ sagði Logi.

„Það vill svo ótrúlega til að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið í nágrenni við þau mál.“

Bjarni sagði að það væri annar listi til en grái listinn; svarti listinn. Grái listinn væri ekki dæmi um spillingu á Íslandi. „Þú ert í ruglinu með þessa nálgun á það mál,“ sagði ráðherra.

Bjarni skaut föstum skotum á Samfylkinguna í lok ræðu sinnar, með frammíköllum Loga. Steingrímur J. Sigfússon þingforseti bauð Bjarna og Loga að halda umræðum sínum áfram í matsal þingins.

mbl.is