Skila hagnaði þrátt fyrir sögulega lágt verð á laxi

Starfsmenn í sláturhúsi Arnarlax á Bíldudal pakka laxi til útflutnings. …
Starfsmenn í sláturhúsi Arnarlax á Bíldudal pakka laxi til útflutnings. Greiningarfyrirtæki sem þekkja til fiskeldis sjá mikla möguleika í starfsemi fyrirtækisins til framtíðar. Það fær hærra verð fyrir afurðirnar. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

„Þetta skapar gegnsæi um starfsemi félagsins og auðveldar aðgang að fjármagni,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, stærsta fiskeldisfyrirtækis landsins, sem skráð verður í dag á NOTC, lista kauphallarinnar í Osló fyrir minni fyrirtæki. Arnarlax skilaði hagnaði á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir að verð á laxi hafi þá verið það lægsta í áratug.

Nokkur spenningur ríkir um verðmyndun á hlutabréfum Arnarlax þegar viðskipti hefjast í dag. Norski fiskeldisrisinn SalMar á 59,4% hlutafjár og greiddi 55,80 norskar krónur á hlut í yfirtökutilboði í byrjun ársins. Verðmæti hlutabréfa félagsins var þá rúmir 20 milljarðar íslenskra króna.

Í greiningu Arctic Securities frá því í október er mælt með kaupum á hlutabréfum fyrirtækisins og verðmæti hvers hlutar metið 100 norskar krónur. Ef verðið nær því marki nálgast heildarverðmæti hlutabréfa félagsins 40 milljarða íslenskra króna en til samanburðar má geta þess að verðmæti hlutabréfa Icelandair var í gær 41 milljarður króna í Kauphöll Íslands.

Fá athygli greiningaraðila

Kjartan segir að í hluthafasamkomulagi eigenda Arnarlax sé ákvæði um að skrá félagið í norsku kauphöllinni. Félagið hafi verið í ströngu undirbúningsferli og sé nú tilbúið til að stíga þetta skref.

Hann segir að það hafi þá kosti að skrá fyrirtækið á markað í Noregi að þar sé mikill áhugi og þekking á fiskeldi. Fyrirtækið fái nú athygli greiningarfyrirtækja sem fylgist grannt með starfseminni. Nefnir hann að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hafi ákveðið, af þessum sökum, að skrá hlutabréf sín í kauphöllinni í Osló í lok síðasta árs þótt beinna hefði legið við að skrá þau í Kaupmannahöfn vegna mikilla viðskiptatengsla þangað.

Stjórnendur Arnarlax stefna að því að félagið fái skráningu á aðallista kauphallarinnar í Osló þegar það hefur náð réttri stærð. Kjartan vonar að það geti gerst á næsta ári. Skráningu á markað fylgir ákveðin upplýsingaskylda þótt hún sé minni á NOTC en aðallista. Kjartan segir að SalMar sé almenningshlutafélag, skráð á aðallista, og því fylgi miklar kröfur sem Arnarlax þurfi að taka tillit til.

Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert