Snjallsímaforrit aðstoðar sykursjúka

Insúlínskortur. Sykursýki leiðir til of mikils sykurs eða glúkósa í ...
Insúlínskortur. Sykursýki leiðir til of mikils sykurs eða glúkósa í blóði.

Alþjóðlegi sykursýkisdagurinn var haldinn í gær, 14. nóvember, líkt og árlega frá árinu 1991.

Samtök sykursjúkra stóðu af því tilefni fyrir málþingi og Lionsmenn standa fyrir blóðsykursmælingum við apótek og heilsugæslustöðvar víða um land.

Kynnt var snjallsímaforritið „RetinaRisk“, sem gerir fólki kleift að meta einstaklingsbundna áhættu sína á að fá sjónskerðandi augnsjúkdóma. Forritið var þróað með íslenskum læknum og vísindamönnum.

„Þetta forrit er nýkomið út á íslensku og okkur fannst tilvalið að vekja athygli á því á þessum degi. Um er að ræða mikið frumkvöðlastarf sem er afrakstur um 10 ára vinnu,“ segir Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Risk, og bætir við að snjallsímaforritið geri fólki með sykursýki kleift að fylgjast með einstaklingsbundinni áhættu sinni á að þróa með sér augnsjúkdóma sem leitt geta til sjónskerðingar og jafnvel blindu. Segir hún reiknivél þessa hafa verið hannaða af fræðimönnum og heilbrigðisstarfsfólki með yfir 30 ára reynslu í skimun augnsjúkdóma og meðhöndlun á sykursýki.

„Við greiningu sína tekur forritið meðal annars tillit til nokkurra áhættuþátta, til að mynda kyn viðkomandi, tegund sykursýki, hversu lengi viðkomandi hefur verið með sjúkdóminn og fleiri þætti. En svo eru breytilegir þættir einnig til staðar, svo sem blóðsykur og blóðþrýstingur. Með því að greina þessa áhættuþætti og fleiri til getur viðkomandi séð hættuna á að fá augnsjúkdóma,“ segir Sigurbjörg Ásta.

Talið er að 430 milljónir einstaklinga í heiminum séu með sykursýki og að fjöldinn verði kominn í 600 milljónir árið 2045. Fjöldi Íslendinga með sykursýki er nokkuð á reiki enda engin skráning til staðar en talið er að um 15 þúsund Íslendingar glími við sjúkdóminn. Til eru þrjár tegundir af sykursýki, þ.e. tegundir eitt og tvö og meðgöngusykursýki, að því er fram kemur  í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is