70 fengu íslenskuverðlaun unga fólksins

70 reykvískir grunnskólanemar tóku í dag við Íslenskuverðlaunum unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík og hafa aldrei fleiri hampað verðlaununum á Degi íslenskrar tungu. 

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, og Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi afhentu Íslenskuverðlaunin sem að þessu sinni voru bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar og viðurkenningarskjal. Einnig fengu verðlaunahafar að gjöf bókamerki frá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.

Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Um 800 nemendur eða nemendahópar hafa verið tilnefndir til Íslenskuverðlaunanna frá upphafi en þau voru nú veitt í þrettánda sinn. Allir grunnskólar í borginni geta tilnefnt nemendur eða nemendahópa, einn á hverju skólastigi. Meðal verðlaunahafa í ár voru ungir lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar, tvítyngdir nemendur sem náð hafa góðum tökum á íslensku á skömmum tíma, ljóðskáld og sagnahöfundar. Verndari Íslenskuverðlaunanna er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. 

Við athöfnina í Hörpu fluttu nemendur í Sæmundarskóla lagið Viltu vera með? úr Skrekksatriði skólans 2019 og Skólahljómsveit Austurbæjar lék undir stjórn Eiríks Rafns Stefánssonar. Þá var að vanda samsöngur stoltra verðlaunahafa, foreldra, systkina og kennara sem sungu lagið hans Atla Heims við texta Þórarins Eldjárns; Á íslensku má alltaf finna svar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert