Mikil jarðskjálftavirkni á Reykjaneshryggnum

Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálftanna.
Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálftanna. Kort/Veðurstofa Íslands

Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið vestur af Geirfugladrangi á Reykjaneshryggnum um 45 km suðvestur af Reykjanesi síðustu klukkustundirnar og hafa átján þeirra verið af stærðinni 3 til 3,8 stig. Stærsti skjálftinn var 4,5 að stærð og varð kl. 13:17. Tugir minni skjálfta hafa mælst og halda áfram að mælast.

Á síðustu 48 klukkustundum hafa samtals 350 jarðskjálftar mælst víða um land, flestir þó á bilinu 1 til 2 stig að stærð.

„Þetta var að byrja rétt eftir hádegi. Þetta kemur alveg fyrir og er ekki óalgengt en er ekki daglegt brauð heldur,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, skjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, um hrinuna vestur af Geirfugladrangi sem hefur verið talsverð síðustu tvær klukkustundir. Skjálftar sem eru 2 stig eða stærri eru rúmlega 60 talsins.

Það er ennþá verið að vinna í því að fara yfir gögnin, staðsetja bylgjurnar og þetta tekur allt sinn tíma.

„Eins og er þá er ekkert sem bendir til þess að það geti orðið fljóðbylgjur. Við höfum fengið tilkynningar að þetta hafi fundist á Reykjanesskaganum, höfuðborgarsvæðinu og upp á Akranes,“ hún við.

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna skjálftahrinunnar:

„Í morgun hófst jarðskjálftahrina á Reykjaneshrygg og upp úr hádegi mældust nokkrir skjálftar stærri en 3,0 að stærð á skömmum tíma. Stærsti skjálftinn var 4,5 að stærð og varð kl. 13:17. Skjálftarnir eru staðsettir um 45 km SV af Reykjanesi. Tugir minni skjálfta hafa mælst í kjölfar stærri skjálftanna og halda áfram að mælast. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist á Reykjanesskaga, Höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Síðast mældust jarðskjálftar af svipaðri stærð á Reykjaneshrygg í júní 2018 og snörp jarðskjálftahrina varð á svipuðum slóðum í júní og júlí 2015 en þá mældist stærsti skjálftinn 5,0 að stærð og sjö skjálftar stærri en 4,0.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

Enn á eftir að fara yfir öll gögn til að …
Enn á eftir að fara yfir öll gögn til að staðfesta stærðir og staðsetningar. Skjáskjot af vedur.is
Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálftanna.
Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálftanna. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is