Stærsti jarðskjálftinn var 4,5 að stærð

Skjálftarnir urðu rúmlega 300 talsins á Reykjaneshryggnum frá hádeginu í …
Skjálftarnir urðu rúmlega 300 talsins á Reykjaneshryggnum frá hádeginu í gær. Kort/Veðurstofa Íslands

Nú klukkan 8:38 í morgun varð jarðskjálfti af stærð 2,9 um 9 km suður af Helgafelli við Hafnarfjörð. Þetta kemur fram í athugasemd jarðvísindamanns á vef Veðurstofu Íslands og þar segir að borist hafi tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu.

„Það hefur ekkert mælst meira en þessi eini við Helgafell, engir eftirskjálftar á þessu svæði,“ segir Bryndís Ýr Gísla­dótt­ir, skjálfta­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands í samtali við mbl.is.

Öflug jarðskjálftahrina sem hófst upp úr hádegi í gær á Reykjaneshrygg virðist vera í rénun, segir einnig á vefnum. Í hrinunni mældust tæplega 30 jarðskjálftar stærri en 3,0 og stærsti skjálftinn mældist 4,5 og varð klukkan 13:17 í gær.

Skjálftarnir voru staðsettir um 45 km suðvestur af Reykjanesi og mældust rúmlega 300 minni skjálftar í kjölfar stærri skjálftanna.

Veðurstofunni bárust tilkynningar um að stærsti skjálftinn hafi fundist á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálfta. Sá sem mældist við …
Kortið sýnir staðsetningu og stærð skjálfta. Sá sem mældist við Helgafell við Hafnarfjörð er merktur með rauðum punkt. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert