Peningabögglum rignir yfir íbúa bresks smábæjar

Íbúar smábæjarins hljóta að vera með þeim heiðarlegustu sem fyrirfinnast.
Íbúar smábæjarins hljóta að vera með þeim heiðarlegustu sem fyrirfinnast. Ljósmynd/Wikipedia.org

Meiri líkur eru taldar á því að finna seðlabúnt á glámbekk en vinna í lottó í smábænum Blackhall Colliery í Norðaustur-Englandi. Íbúar í bænum eru furðulostnir yfir dularfullum peningabögglum sem hafa fundist víða um bæinn á síðustu fimm árum. 

Alls hafa fundist rúmar fjórar milljónir króna í 13 pökkum á síðustu fimm árum, samkvæmt  upplýsingum frá lögreglunni í Durmham. Í peningapökkunum 13 hafa að jafnaði verið um rúmlega 300 þúsund krónur eða 2.000 pund í 20 punda seðlum. 

Nýjasti pakkinn fannst á mánudaginn og það er sá fjórði á þessu ári.  

„Peningabögglarnir eru alltaf skildir eftir á áberandi stöðum eins og á gangstétt þar sem hver sem er getur fundið þá. Borgarar hafa skilað þeim inn til lögreglunnar,“ segir John Forster rannsóknarlögreglumaður og bætir við að kannski standi miskunnsami samverjinn að baki sendinganna. 

Lögreglan er engu nær um hver er að verki og virðast peningabúntin koma af himnum ofan. „Samfélagið hefur sýnt ótrúlegan karakter,“ segir hann og vísar í hreinlyndi samborgaranna sem skila samviskusamlega inn fjármununum. 

Ýmsar getgátur eru um peningaseðlana. Sumir telja milljarðamæring standa á bak við peningabögglana og sé hreinlega „Svarti-Sveinki“, aðrir telja enga tilviljun að peningarnir séu skildir eftir einmitt í þessum bæ. Allt frá því að kolanámu var lokað við bæinn á áttunda áratug síðustu aldar hefur bærinn átt erfitt uppdráttar og atvinnulífið hefur verið fábrotið.  

„Kannski er einhver að reyna að hjálpa okkur. Þetta gæti verið aðstoðarmaður jólasveinsins,“ segir hann. 

Það væri ekki amalegt að rekast á nokkra seðla með …
Það væri ekki amalegt að rekast á nokkra seðla með bresku drottningunni á götu úti. Ljósmynd/Wikipedia.org
mbl.is