Spúðu eldi án leyfis

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglumenn á Suðurnesjum litu í eftirlitsferð sinni nýverið inn í saltgeymslur að Víkurbraut og sáu að þar blossaði upp eldur við og við.

Þegar þeir athuguðu málið nánar sáu þeir nokkra aðila klædda baðfatnaði og ljósmyndara taka myndir af þeim. Út úr þeim stóðu eldtungur við og við og kváðust þau vera að spúa eldi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Í ljós kom að viðkomandi voru að taka myndir fyrir fyrirtæki sitt í auglýsingaskyni.

Þeim var sagt að ekki gæti talist eðlilegt að fara inn í byggingar, þótt yfirgefnar væru, til að stunda iðju sem þessa án leyfis. Kváðust þau ætla að afla sér leyfis ef þau teldu sig þurfa að spúa meiri eldi.

Athugasemd frá þeim sem voru að spúa eldi

Fréttin segir ekki alla söguna, að mati hópsins sem þarna var á ferð. Hópurinn sendi mbl.is eftirfarandi athugasemd:

„Lögreglan bað okkur ekki um að fara og upplýsti okkur ekki um að þetta væri á neinn hátt ólöglegt. Þau gerðu athugun og mat á kringumstæðum og var ekkert í húsnæðinu þess vert að hafa áhyggjur af eða líklegt til eyðilegginga eða skemmda. Því lá engin hætta í því að við skyldum vera þarna að mynda í auglýsingaskyni.“

mbl.is