Telur ýmsum spurningum enn ósvarað

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér þótti gagnlegt að fá ráðherrann á nefndarfund til þess að fara yfir málið og viðbrögð ríkisstjórnarinnar sem komu fram í gær. En það eru engu að síður nokkur atriði sem eru óljós,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs, í samtali við mbl.is en fundað var að hennar ósk í atvinnuveganefnd Alþingis í dag um Samherjamálið og var Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra kallaður fyrir nefndina til þess að svara spurningum vegna málsins.

„Til að mynda er óljóst nákvæmlega hvernig eigi að útfæra fyrirhugað samstarf við Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og sömuleiðis er ýmislegt líka óljóst varðandi það gagnsæi sem boðað er. Mér finnst líka að það mættu vera skýrari línur þegar kemur að hæfni ráðherra til þess að takast á við þetta mál og halda utan um málefni Samherja,“ segir Rósa Björk enn fremur. Ljóst sé að risavaxið verkefni sé framundan við að endurheimta traust á starfshætti fyrirtækisins og um leið greinarinnar.

Frá fundi atvinnuveganefndar í dag.
Frá fundi atvinnuveganefndar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er stórt verkefni sem ég held að við megum ekki smætta heldur þvert á móti vinna ötullega í því og þá verðum við að horfast í augu við það hvort viðkomandi ráðherra sé hæfur til þess að halda utan um það verkefni. Mér fannst hann persónulega vera frekar óljós með það á fundi nefndarinnar en hann þarf náttúrulega að meta það sjálfur hvort hann sé hæfur til þess og það er líka eitthvað sem ríkisstjórnin þarf að gera.“

Efins um að Kristján Þór sé rétti maðurinn í verkið

Sjálf segist Rósa Björk hafa efasemdir um að Kristján sé rétti maðurinn til þess að halda utan um það verkefni. „Persónulega er ég efins um það að hann með öll sín persónulegu tengsl og alla sína sögu með Samherja hvort hann sé best til þess fallinn að halda utan um þessa tiltekt og þessa uppbyggingu trausts á viðskiptaháttum fyrirtækisins.“ Mikilvægt sé að senda skýr skilaboð um að tekið verði á málinu með afdráttarlausum hætti. Spurð hvernig Rósa Björk sjái fyrir sér framhaldið segir hún:

„Það var gott að fá þessi viðbrögð frá ríkisstjórninni í gær. En ég myndi vilja sjá heildstæða úttekt á starfsháttum og viðskiptaháttum Samherja. Þá yrði sú heildstæða úttekt líka gerð af hálfu yfirvalda því það mun taka tíma að bíða eftir lögregluyfirvöldum og ég tel að það liggi á því að stjórnvöld sýni að þau vilji fara í úttekt á málinu. Það er síðan auðvitað Alþingis líka að fylgjast með og sinna sínu aðhaldshlutverki sem því ber samkvæmt lögum, bæði þingmenn og þingnefndir, og ég vonast auðvitað til þess að við munum sinna því.“

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert