Biðin ekki styttri síðan 2010

Bið eftir úthlutun húsnæðis á Stúdentagörðum Félagsstofnunar stúdenta (FS) hefur ekki verið styttri síðan árið 2010 að lokinni síðustu úthlutun núna á haustmisseri.

Stendur biðlistinn nú í 591 umsókn, en haustið 2010 stóð hann í 524 umsóknum, að því er segir í tilkynningu.

Þegar mest lét, haustið 2016, voru 1.160 umsækjendur á biðlista að úthlutun lokinni. Nýr stúdentagarður við Sæmundargötu 21, sem tekinn verður í notkun í byrjun febrúar, mun bæta stöðuna enn frekar. Ný vefsíða Stúdentagarða hefur einnig verið sett í loftið.

„FS hefur með markvissri uppbyggingu leigueininga á Stúdentagörðum náð að vinna á langvarandi og erfiðu ástandi sem ríkt hefur í húsnæðismálum stúdenta við Háskóla Íslands. Frá árinu 2013 hefur FS fjölgað leigueiningum sem nemur 401. Er fjöldi eininga í eigu FS 1.200 í dag, en þar búa um 1.800 manns, þ.e. stúdenta og fjölskyldur þeirra. Með opnun nýs stúdentagarðs, Mýrargarðs við Sæmundargötu (á Vísindagarðareit), í febrúar n.k. mun enn frekar takast að vinna niður biðlista þegar 244 leigueiningar verða teknar í notkun,“ segir í tilkynningunni.

„Við erum afskaplega ánægð með þessa jákvæðu þróun og munum halda áfram á þessari braut. Biðlistar á Stúdentagörðum hafa í gegnum tíðina verið langir og erfitt að geta ekki veitt þeim sem vilja og þurfa húsnæði á góðum kjörum, sérstaklega þar sem almenni leigumarkaðurinn hefur verið þessum hópi mjög þungur. Nú hyllir í betri tíma,“ segir Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, í tilkynningunni.

Markmið FS er að geta veitt 15% nemenda við Háskóla Íslands húsaskjól, sem er sambærilegt framboð og víða á Norðurlöndum. Í dag stendur sú tala í 11% en nemendur við Háskóla Íslands eru um 13.100 talsins.

mbl.is