Ræða áskoranir tengdar peningaþvætti

Fundurinn fer fram á efri hæð Sólon milli kl. 16 ...
Fundurinn fer fram á efri hæð Sólon milli kl. 16 og 18 eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

„Það er nú bara tilviljun að þetta kemur upp akkúrat þegar Samherjamálið er í gangi. Við vorum búin að skipuleggja þetta fyrir löngu,“ segir Jón Ólafsson, varaformaður Gagnsæis, samtaka gegn spillingu, sem ásamt Blaðamannafélaginu og Kjarnanum standa að umræðufundi um peningaþvætti síðdegis í dag.

Á fundinum, sem fram fer á efri hæð Sólin kl. 16 til 18, verður fjallað almennt um baráttu gegn alþjóðlegu peningaþvætti, aðferðir og helstu hindranir í rannsóknum.

Þar heldur erindi Ilia Shumanov, aðstoðarframkvæmdastjóri Rússlandsdeildar Transparency International. „Hann ætlar að vera með smá fyrirlestur þar sem hann er að horfa á stærri mynd af þróun peningaþvættis og aðferða. Það sem hann hefur svolítið verið að skoða sjálfur er hvernig aðferðirnar eru alltaf að breytast og hvernig menn eru alltaf aðeins á undan yfirvöldum,“ segir Jón.

Þó að tilviljun sé að umræðufundurinn fari fram nú þegar Samherjamálið er í hámæli segir Jón að að sjálfsögðu verði það rætt í ljósi stöðunnar.

„Auðvitað verðu Samherjamálið svo í fókus, það verða í pallborði Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður á RÚV, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. Þetta byrjar á fyrirlestri Shumanov sem verður meira á almennu nótunum en svo þróast umræðurnar bara eftir því hvað fólk hefur áhuga á að tala um.“

Rétta er að taka fram að fundurinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

mbl.is