Enn tekist á um hvort Spartakus sé ónafngreindi Íslendingurinn

Málflutningur í máli Guðmundar Spartakusar gegn blaðamanninum Atla Má Gylfasyni …
Málflutningur í máli Guðmundar Spartakusar gegn blaðamanninum Atla Má Gylfasyni fór fram í Hæstarétti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Þau 23 ummæli blaðamannsins Atla Más Gylfasonar sem dæmd voru dauð og ómerk í Landsrétti eiga það öll sameiginlegt, ólíkt þeim sem ekki voru dæmd ómerk, að nafn Guðmundar Spartakusar Ómarssonar kemur þar hvergi fyrir. 

Þetta kom fram í málflutningi Gunnars Inga Jóhannssonar, lögmanns Atla Más, fyrir Hæstarétti í dag, þar sem meiðyrðamál Guðmundar Spartakusar gegn blaðamanninum er til umfjöllunar.

Atli Már var sýknaður af kröfum Guðmundar Spartakusar um ómerkingu 30 ummæla og miskabætur í Héraðsdómi Reykjaness. Landsréttur sneri dómi héraðsdóms og dæmdi 23 ummæli dauð og ómerk og gerði Atla Má að greiða Guðmundi Spartakusi 1,2 milljónir í miskabætur.

Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti.
Guðmundur Spartakus Ómarsson í Landsrétti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í málflutningi Gunnars Inga og lögmanns Guðmundar Spartakusar, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, var aðallega tekist á um hvort ónefndi Íslendingurinn í umfjöllun Atla Más, þáverandi blaðamanns Stundarinnar, um hvarf Friðriks Kristjánssonar væri Guðmundur Spartakus. Stefna Guðmundar Spartakusar hefur frá upphafi byggt á því að augljóst sé að vísað sé til hans í umfjölluninni, en Atli Már heldur því fram að svo sé ekki.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Atli Már hafi með umfjöllun sinni ekki vegið svo að æru stefnanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar.

Ekki aðalatriðið hver ónafngreindi Íslendingurinn væri

Í dómi Landsréttar er það hins vegar sagt augljóst að Atli Már hafi átt við Guðmund Spartakus með ummælum sínum, þótt hann sé þar ekki nafngreindur, og að hann hafi með því borið hann sökum um alvarlegan og svívirðilegan glæp, sem varði að íslenskum lögum ævilöngu fangelsi, en að ekki lægi fyrir kæra, ákæra eða dómur og að engin gögn styddu fullyrðingarnar.

Atli Már Gylfason, t.h., ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga, við …
Atli Már Gylfason, t.h., ásamt lögmanni sínum, Gunnari Inga, við fyrirtöku málsins í héraðsdómi. mbl.is/​Hari

Samkvæmt málflutningi Gunnars Inga var í umfjöllun Atla Más fjallað um viðkvæmar upplýsingar sem áttu erindi við almenning, og að ekki hafi verið hægt að fjalla um hvarf Friðriks án þess að minnast á Guðmund Spartakus, þar sem hans hefði verið leitað af lögreglu í tengslum við hvarf Friðriks, líkt og komið hafði fram í öðrum íslenskum fjölmiðlum, auk upplýsinga fjölmiðils í Paragvæ, þar sem Friðrik er talinn hafa horfið, þess efnis að Guðmundur Spartakus stæði þar í umfangsmiklum út- og innflutningi á fíkniefnum.

Þá hafi Guðmundur Spartakus viðurkennt í skýrslutöku að hafa heyrt sögusagnir þess efnis að Íslendingur hafi myrt Friðrik í Paragvæ, auk þess sem lögmaður hans staðfesti fyrir Landsrétti að Guðmundur Spartakus hefði haft stöðu grunaðs manns í málinu. Því væri ljóst að umfjöllun Atla Más var ekki úr lausu lofti gripin, en að aðalatriði umfjöllunarinnar hafi verið að Íslendingur hafi myrt Friðrik en ekki hvaða Íslendingur það væri.

Sagði Vilhjálmur það skrípaleik að vísa í nafngreindan mann og annan ónafngreindan í umfjölluninni, og það væri með ólíkindum að því væri enn haldið fram að umfjöllunin væri ekki um Guðmund Spartakus. Þá hefði skjólstæðingur hans einungis í einu sinni, fyrir þremur árum síðan, verið spurður af lögreglu hvort hann vissi eitthvað um hvarf Friðriks. Ekki hefði verið haft við hann samband vegna málsins síðan.

Fjölskylda Friðriks ítrekað reynt að hafa samband við Guðmund Spartakus

Þegar málsmeðferð var lokið í Hæstarétti gaf Kristján Einar Kristjánsson, bróðir Friðriks, sem talinn er hafa horfið í S-Ameríku árið 2013, sig á tal við fjölmiðla sem viðstaddir voru og vildi fá að koma á framfæri yfirlýsingu frá fjölskyldu Friðriks.
Sagði Kristján að frá árinu 2013 hafi það nánast eingöngu verið fjölmiðlar og blaðamenn sem hefðu komið að því að upplýsa um afdrif Friðriks. Fjölskylda hans hefði árangurslaust reynt að hafa samband við Guðmund Spartakus frá því að hætti að spyrjast til Friðriks, í tilraun til þess fá einhver svör um afdrif hans. Það hafi ekki verið fyrr en Guðmundur Spartakus kom fyrir Landsrétt í byrjun þessa árs sem einhver svör hefðu fengist.
„Það tók okkur sex ár að fá einhver svör og það hefði aldrei gerst án fjölmiðla. Þetta er eitt augljósasta dæmi mikilvægis þess að ekki sé ráðist á frjálsa fjölmiðlun. Niðurstaða þessa máls skiptir ekki öllu máli, heldur skiptir það máli að hægt sé að fjalla um svona mál.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert