Kennsla samkvæmt stundaskrá á morgun

Mýrarhúsaskóli og Valhúsaskóli sameinuðust árið 2004 í Grunnskóla Seltjarnarnes. Í …
Mýrarhúsaskóli og Valhúsaskóli sameinuðust árið 2004 í Grunnskóla Seltjarnarnes. Í Mýrarhúsaskóla eru nemendur í 1.-6. bekk og í Valhúsaskóla eru nemendur á unglingastigi. Kennsla féll niður í Valhúsaskóla í dag vegna óánægju kennara með fram­göngu kjör­inna full­trúa og þeirra orða sem þeir hafa látið falla op­in­ber­lega um náms­mat skól­ans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennsla verður samkvæmt stundaskrá í Valhúsaskóla á morgun, þriðjudag. Þetta kemur fram í skriflegu svari sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar við fyrirspurn mbl.is. Tilkynning þess efnis hefur verið send til allra foreldra barna í 7.-10 bekk grunnskóla Seltjarnarness (Valhúsaskóla). 

Kenn­ar­ar og stjórn­end­ur Grunn­skóla Seltjarna­rness kenndu ekki 7.-10. bekk í Val­húsa­skóla í dag þar sem þeir telja meiri­hluta bæj­ar­stjórn­ar og full­trúa Viðreisn­ar/​​Neslist­ans hafa vegið gróf­lega að heil­ind­um sín­um, fag­mennsku og starfs­heiðri með orðum um námsmat skólans sem lát­in voru falla á bæj­ar­stjórn­ar­fundi í síðustu viku. Kenn­ar­arn­ir treystu sér ekki til þess að taka á móti nem­end­um af þess­um sök­um.

Í yfirlýsingu frá meiri­hluta Sjálf­stæðis­flokks­ins í bæj­ar­stjórn á Seltjarn­ar­nesi er lýst yfir „fullu trausti“ í garð skóla­stjórn­enda og kenn­ara við Grunn­skóla Seltjarn­ar­ness og um leið ánægju með gott starf í skól­an­um til fjölda ára. Meirihlutinn segist harma þá stöðu sem upp er komin og að fundað verði um málið hið fyrsta.

Sjálfstæðisflokkurinn á fjóra fulltrúa í bæjarstjórn og myndar hreinan meirihluta. Minnihlutinn samanstendur af tveimur fulltrúum Samfylkingar og einum fulltrúa Neslistans/Viðreisnar. 

mbl.is hef­ur í dag reynt að ná í Ásgerði Hall­dórs­dótt­ur, bæj­ar­stjóra Seltjarn­ar­ness, vegna máls­ins, án ár­ang­urs. Þá hef­ur mbl.is ekki held­ur náð tali af stjórn­end­um Val­húsa­skóla eða for­manni skólaráðs bæj­ar­ins.

mbl.is