Ríkið sýknað af kröfum Ágústu Elínar

Ágústa Elín Ingþórsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Ágústa Elín Ingþórsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Íslenska ríkið var í dag sýknað í Héraðsdómi Reykjavíkur af öllum kröfum Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, en Ágústa höfðaði málið vegna ákvörðunar Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um að auglýsa embætti skólameistara laust til umsóknar. Málinu verður líklega áfrýjað til Landsréttar.

Lilja auglýsti embættið laust til umsóknar frá og með komandi áramótum, en samkvæmt lögum framlengist skipunartími skólastjórnenda um fimm ár í senn nema ráðherra ákveði að auglýsa stöðuna. Hefði skipunartími Ágústu því átt að framlengjast til ársins 2025, en til að ákvörðun ráðherra standist þarf að tilkynna hana með sex mánaða fyrirvara. Lilja hringdi í Ágústu 30. júní og lét hana vita af ákvörðuninni, en skrifleg tilkynning var ekki send fyrr en daginn eftir, 1. júlí, en þá voru minna en sex mánuðir þangað til skipunartíminn átti að renna út.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/​Hari

Í málinu taldi Ágústa að hún hefði ekki fengið tilkynninguna formlega fyrir tímamörkin og að ákvörðun ráðherra um að auglýsa embættið hefði ekki verið málefnaleg né staðið að henni með réttum hætti út frá reglum stjórnsýslu.

Sem fyrr segir sýknaði héraðsdómur íslenska ríkið af öllum kröfum. Gísli Guðni Hall, lögmaður Ágústu, segir í samtali við mbl.is að gera megi ráð fyrir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar. „Mér finnst litlar kröfur gerðar til stjórnsýslunnar í forsendum dómsins og því fullt tilefni til að áfrýja til Landsréttar,“ segir Gísli.

Málskostnaður var felldur niður í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert