„Þetta er óhóflega dýrt“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert

„Miðað við þessar tölur er ljóst að þetta er óhóflega dýrt,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við mbl.is, en líkt og komið hefur fram í fréttum nam kostnaður við þá tuttugu fundi sem borgarstjórn hélt frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári rúmum 17 milljónum króna eða 850 þúsundum að meðaltali á hvern fund. Greitt var meðal annars fyrir veitingar og yfirvinnu starfsfólks.

Fyrir það fyrsta segir Eyþór að þarna spili meðal annars inn í að fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 hafi verið dýr á alla kanta en hafi ekki átt að kosta neitt upphaflega að mati meirihlutans í borgarstjórn. Hins vegar væri ljóst að allir borgarfulltrúar þyrftu tíma, aðstoð, mat o.s.frv. Hins vegar virtist sem kostnaður almennt í rekstri borgarinnar væri allt of hár og hann hækkaði langt umfram verðlag á milli ára.

Mikið skeggrætt en ekkert hagrætt

„Rekstrarkostnaður Reykjavíkurborgar er núna til dæmis að hækka um einhver 16% á tveimur árum á meðan aðrir eru í niðurskurði í þjóðfélaginu þannig að þetta er dæmi um að það er ekkert hagrætt en það er mikið skeggrætt,“ segir Eyþór. Kostnaðurinn við fundi borgarstjórnar er þannig að hans sögn einn angi af miklu stærra máli sem snúi að rekstrarkostnaðinum við ekki síst við yfirbygginguna í Reykjavíkurborg.

„Við hefðum viljað hafa færri borgarfulltrúa, færri nefndir o.s.frv. Núverandi meirihluti er alltaf að fara í hina áttina. Með því meðal annars að auka yfirbygginguna. Það var alveg fyrirséð að þegar borgarfulltrúum væri fjölgað úr 15 í 23 myndi allur kostnaður aukast. Meirihlutinn taldi ranglega að það myndi ekki gerast,“ segir hann. Þetta séu fjármunir sem betur væri varið til grunnþjónustunnar við borgarbúa og að lækka álögur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert