Tveir í 3 ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Tveir karlmenn hafa verið dæmdir til þriggja ára fangelsisvistar fyrir nauðgun, auk þess sem þeim er hvorum um sig gert að greiða brotaþola, sem var 16 ára þegar brotin áttu sér stað, 1,3 milljónir króna í miskabætur.

Sakfelldu, Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, voru 32 og 36 ára þegar þeir brutu gegn stúlkunni í kjallara fjölbýlishúss í febrúar 2017.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur eru atvik rakin með þeim hætti að stúlkan hafi hitt 19 ára gamlan pólskan mann, sem einnig var ákærður í málinu, í miðbæ Reykjavíkur og þau farið heim til hans þar sem hann leigði herbergi í kjallara fjölbýlishúss og var nágranni sakfelldu, Lukaszar og Tomaszar.

Lukasz og Tomasz voru ákærðir og sakfelldir fyrir að hafa þvingað stúlkuna til kynferðismaka með því að beita hana ólögmætri nauðung, en í dómi héraðsdóms kemur fram að brotaþoli hafi verið mjög ölvuð og ákærðu hafi mátt vera það ljóst.

Þannig hafi ákærðu misnotað sér gróflega aðstöðu sína á grundvelli yfirburða sinna í aldri og þroska, ölvunarástand brotaþola og þeirra aðstæðna sem uppi voru, þar sem brotaþoli var ein með þremur ókunnugum mönnum í óvenjulegu húsnæði.

Þriðji maðurinn, sem ákærður var fyrir að notfæra sér ástand stúlkunnar til að láta hana hafa við sig munnmök, var sýknaður á grundvelli þess að brotaþoli staðfesti ekki framburð sinn hjá lögreglu í skýrslu sinni fyrir dómi, auk þess sem framburður ákærða um atvik var óljós að því leyti að hann sagðist ekki viss um að „hún hafi gert þetta“, að því er fram kemur í dómnum.

„Verður þannig ekki byggt á framburði brotaþola hjá lögreglu sem hún staðfesti ekki í skýrslu sinni fyrir dómi. Með framburði ákærða einum verður ekki talið sannað að brotaþoli hafi haft munnmök við ákærða umrætt sinn og er ákærði X þegar af þeirri ástæðu sýknaður af broti því sem honum er gefið að sök í ákæru.“

mbl.is