50.000 fyrir að aka yfir á rauðu

Sektir hækka og viðurlög þyngjast, samkvæmt drögum að nýrri reglugerð …
Sektir hækka og viðurlög þyngjast, samkvæmt drögum að nýrri reglugerð um umferðarlagabrot. mbl.is/Hari

Drög að nýrri reglugerð um sektir vegna umferðarlagabrota hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Meðal þeirra breytinga sem lagðar eru til er að sekt fyrir akstur gegn rauðu ljósi hækki úr 30.000 krónum í 50.000 krónur, auk þess sem sekt fyrir vanrækslu á skyldum vegfarenda við tilkynningu umferðaróhapps hækki í 30.000 krónur, en í núgildandi reglugerð eru þær 20.000-30.000 krónur.

Lagt er til að viðurlög við ölvunarakstri er magn vínanda í blóði mælist 1,20-1,50 prómill verði 1 árs og 6 mánaða svipting ökuréttinda, en sviptingin nemur nú einu ári. Sektin haldist þó óbreytt, 180.000 krónur.

Þá er lagt til að nýju þrepi verði bætt við töflu um sviptingar vegna ölvunaraksturs. Samkvæmt núgildandi reglugerð eru allir þeir sem mælast með meira en 2 prómill af vínanda í blóðinu sviptir réttindum í tvö ár, en í drögunum er gert ráð fyrir að sviptingin vari í þrjú ár sé hlutfall vínanda á bilinu 2,01 til 2,50 prómill, en þrjú og hálft ár fari hlutfall vínanda yfir 2,50 prómill.

Fíkniefnunum metamfetamíni og metýlfenídati verður einnig bætt við töflu um þau efni sem ekki mega vera í blóði ökumanns, en þar eru fyrir efni á borð við kókaín, THC (virka efnið í kannabisi), MDMA og kókaín.

mbl.is