41 sótti um starf útvarpsstjóra

Samtals sótti 41 um starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, en starfið var auglýst laust til umsóknar 15. nóvember eftir að Magnús Geir Þórðarson sagði starfi sínu lausu og var svo skipaður Þjóðleikhússtjóri frá og með áramótum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn RÚV, en ekki fylgir með hverjir sóttu um stöðuna.

Fram hafði komið að stjórnin ætlaði ekki að gefa upp nöfn umsækjenda, en það hefur harðlega verið gagnrýnt, meðal annars af þingmanninum Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, óskað eftir skýringum frá stjórninni á því af hverju ákveðið hafi verið að birta ekki nöfnin.

Fram kemur í tilkynningunni að á næstu vikum verði farið yfir umsóknir og hefur stjórn fengið ráðningarfyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefnir að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020.

Einn af umsækjendunum er Elín Hirst, eins og hún tilkynnti um í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert