Norðurhlið verksmiðjunnar illa farin

mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Töluvert magn klæðningar hefur farið af norðurhlið Fiskimjölsverksmiðju Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum í óveðrinu sem hefur gengið þar yfir.

Greinilegt er að miklar skemmdir hafa orðið á húsinu. 

Fréttaritari Morgunblaðsins, Óskar Pétur Friðriksson, smellti þessari mynd af skemmdunum.

Uppfært kl. 23.36:

Að sögn Arnórs Arnórssonar hjá björgunarfélagi Vestmannaeyja er um nokkurs konar stálgrindarhús að ræða. Eitt bilið af klæðningu hússins var farið eins og sést á myndinni og fleiri voru tekin að losna.

Björgunarsveitin þurfti frá að hverja enda gat hún ekkert gert í þessu. „Það var stórhættulegt að vera þarna.“

Lögreglan er á staðnum og búið er að láta verkstjórann vita af tjóninu.

170 verkefni í dag

Björgunarsveitir í Eyjum hafa verið kallaðar út í tæplega 170 verkefni í dag. „Við munum ekki eftir öðru eins. Það eru 8 til 9 hópar úti á jafnmörgum bílum og hátt í 50 manns,“ segir hann.

Þök hafa m.a. fokið af litlum kofum og almennt er mikið tjón í bænum.

mbl.is