Varðskipið Þór nýtt sem rafstöð á Dalvík

Varðskipið Þór. Myndin er úr safni.
Varðskipið Þór. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varðskipið Þór er nú á leið frá Siglufirði til Dalvíkur þar sem til stendur að nýta skipið sem rafstöð fyrir bæinn. Þetta verður í fyrsta sinn sem varðskipið Þór er nýtt sem hreyfanleg aflstöð. Þór getur flutt 2MW af rafmagni í land en það er nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum, að því er Landhelgisgæslan greinir frá.

Fram kemur, að við hönnun skipsins hafi verið horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land á afskekktum stöðum vegna rafmagnsleysis. 

Til þessa hafa rafmagnsdreifingaraðilar og veitufyrirtæki ekki talið unnt að tengjast skipinu fyrr en nú. Sérfræðingur skipatæknisviðs Landhelgisgæslunnar er á leið til Dalvíkur þar sem hann aðstoðar við tenginguna.

Áhöfnin á varðskipinu Þór hefur staðið í ströngu í vikunni. Í nótt flutti skipið færanlega aflstöð frá Ísafirði til Siglufjarðar. Óskað var eftir því að einn varðskipsmanna yrði eftir á Siglufirði til að aðstoða við löggæslu.

Þór lagði af stað klukkan níu í morgun frá Siglufirði áleiðis til Dalvíkur en þangað er áætlað að skipið komi um hádegi, að sögn Gæslunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert