Mun færa lögreglunni hundruð milljóna króna

Fjárlaganefnd hefur lagt fram breytingartillögu á fjáraukalögum svo ráðstafa megi hundruðum milljóna króna til lögreglunnar. Um er að ræða 353 milljónir króna sem ætlað er að efla lögregluna í aðgerðum hennar gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þá kemur rúmlega 44 milljóna króna framlag úr ríkissjóði, alls um 400 milljónir.

„Tillagan gerir ráð fyrir að hluta ávinnings sem gerður var upptækur í kjölfar sameiginlegra rannsóknaraðgerða bandarískra og íslenskra stjórnvalda í svokölluðu „Silk Road-máli“ verði ráðstafað til að efla lögregluna, þá sérstaklega í aðgerðum hennar gegn skipulagðri brotastarfsemi, og er þetta framlag fyrst og fremst ætlað til búnaðarkaupa,“ segir í tillögunni.

Hafa fengið fjármunina

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar og flutningsmaður tillögunnar,  ríkissjóð þegar hafa fengið umrædda fjármuni til ráðstöfunar. Hins vegar hafi skort fjárfestingarheimild á móti svo ráðstafa mætti þessum fjármunum. Með samþykkt breytingartillögunnar verði sú heimild veitt. Hann segir aðspurður að framlagið muni renna til lögreglunnar í landinu í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, einkum til kaupa á tækjum.

Fjárfestingarframlagið sé á forræði dómsmálaráðherra sem muni væntanlega ákveða í samvinnu við lögregluna hvert fjármunirnir fari.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert