Ætlar að slíta Zuism: „Ég er búinn að fá nóg“

Ágúst Arnar Ágústsson forstöðumaður Zuism. Hann segist ætla að slíta …
Ágúst Arnar Ágústsson forstöðumaður Zuism. Hann segist ætla að slíta félaginu núna þegar dómsmáli trúfélagsins gegn ríkinu lýkur. mbl.is/RAX

Ágúst Arnar Ágústsson, forstöðumaður trúfélagsins Zuism, segist kominn með nóg af því að standa í stríði við yfirvöld vegna starfsemi trúfélagsins. Hann settist niður með blaðamanni mbl.is á dögunum og sagði frá því að eftir að dómsmáli félagsins á hendur ríkinu vegna ógreiddra sóknargjalda lýkur, verði trúfélaginu Zuism slitið og eignum þess, um það bil 50 milljónum króna, deilt til þeirra sem telja sig eiga endurgreiðslu sóknargjalda inni hjá félaginu. Afgangurinn fari til góðgerðarmála.

mbl.is fjallaði um málefni Zuism undir lok nóvembermánaðar. Ágúst Arnar setti sig í samband við blaðamann eftir að sú blaðagrein birtist og setti út á ýmislegt sem í henni kom fram. Hann sagði blaðamann hafa farið með rangfærslur varðandi rannsókn yfirvalda á hendur honum og Einari bróður hans og spyrt þeirri rannsókn, sem endaði með því að Einar einn hlaut dóm, saman við Kickstarter-verkefni bræðranna.

Blaðamaður bauð honum að setjast niður og fara yfir málin, eins og þau blasa við forstöðumanninum sjálfum, en honum finnst hann hafa verið beittur misrétti af hálfu löggæsluyfirvalda, fulltrúa sýslumanns og einnig fjölmiðla. Ágúst Arnar féllst á það og hitti blaðamann á veitingastað í Garðabæ á dögunum.

Tekið skal fram að mál tengt fjárreiðum trúfélagsins Zuism er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara þessa stundina og hefur rannsóknin „staðið um nokkurt skeið“ samkvæmt svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara við fyrirspurn mbl.is. Héraðssaksóknari segir að ekki verði upplýst hverjir séu með stöðu sakbornings í málinu eins og staða þess sé nú.

„Eftir að starfsmaður sýslumanns stöðvaði greiðslur til Zuism og við höfðuðum mál gegn ríkinu óskaði héraðssaksóknari eftir útskýringum á fjármálum Zuism. Um er að ræða endalausa baráttu við ríkið og reynt er að valda félaginu óþægindum á meðan við höfðum mál gegn ríkinu. Ekkert tengt fjármálum félagsins stenst ekki skoðun og á ekki von á neinu öðru en að ekkert komi úr því,“ segir Ágúst Arnar, spurður út í rannsókn embættisins.

Krefur rannsakendur um gögn varðandi Kickstarter-rannsókn

Það sem Ágúst vildi hvað helst koma á framfæri eftir umfjöllun blaðamanns í lok nóvember var það að tugmilljóna fjársvikamál, sem Einar bróðir hans var dæmdur fyrir, hefði ekkert með hann sjálfan að gera. „Ég vissulega dróst í þetta ásamt einhverjum sex öðrum í byrjun, en það er ekki minnst á mig, ég er ekki vitni og ég er ekki sakborningur í þessu máli,“ segir Ágúst Arnar.

Svo segir hann að Kickstarter-verkefni bræðranna hafi „aldrei verið neitt mál“ að þeim vitandi. „Ég hef aldrei verið kallaður inn fyrir þau,“ segir Ágúst, en fjölmiðlar hafa greint frá því að hérlend löggæsluyfirvöld hafi látið loka einni af söfnunum bræðranna á bandaríska fjármögnunarvefnum Kickstarter. Af þessu hafa þeir Ágúst Arnar og Einar aldrei fengið að heyra frá yfirvöldum, heldur bara frá fréttamanni Ríkisútvarpsins, sem knúði dyra hjá þeim á vinnustofu þeirra að Dalvegi í Kópavogi í október 2015.

Ágúst Arnar sendi nýlega kröfu á embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara …
Ágúst Arnar sendi nýlega kröfu á embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara um afhendingu allra þeirra gagna sem varða rannsókn á Kickstarter-söfnuninni, meðal annars um samskipti lögreglu við bandarísku fjármögnunarsíðuna. mbl.is/RAX

Ágúst Arnar tók samskipti bræðranna við fréttamanninn upp á hljóðupptöku og hefur skeytt hljóðupptökunni saman við það sem heyrist í þeirri útgáfu sem sýnd var í Kastljósi 28. október 2015. Á upptökunni heyrist hvernig fréttamaðurinn spyr sérstaklega út í rannsókn lögreglu á Kickstarter-verkefnunum, rannsókn sem bræðurnir könnuðust ekkert við á þeim tíma, en degi fyrr hafði söfnunarsíðu þeirra á fjármögnunarsíðunni verið lokað.

Sú spurning var þó klippt út úr Kastljósþættinum og í umfjöllun þáttarins var einungis fjallað um aðra rannsókn saksóknara á hendur bræðrunum, þá sem leiddi síðar til dóms yfir Einari. „Það er klárt mál að hann var ekki að spyrja um þetta, hann var að vitna sérstaklega í söfnunina,“ segir Ágúst Arnar.

Hann segir einnig „klárt mál“ að lögreglan hafi látið fréttamann hafa upplýsingar um að hún væri með Kickstarter-verkefni bræðranna til skoðunar. Það segir hann sjást á heimsóknum lögreglunnar á vefsvæði bræðranna á Kickstarter, sem Ágúst Arnar hefur skoðað með greiningartólinu Google Analytics. Þar sést að heimsóknir lögreglu inn á Kickstarter-vefinn eru tíðar í október 2015, í aðdraganda Kastljóssþáttarins 28. október 2015 þar sem bræðurnir voru teknir tali.

Ágúst Arnar segir ljóst af gögnum sem hann hefur aflað …
Ágúst Arnar segir ljóst af gögnum sem hann hefur aflað sér með greiningartólinu Google Analytics að lögregla hafi „hangið“ inni á Kickstarter-síðu bræðranna áður en síðunni var lokað. Skjáskot úr Google Analytics


„Lögreglan hefur aldrei viðurkennt það fyrir mér,“ segir Ágúst Arnar, sem sendi nýlega kröfu á embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara um afhendingu allra þeirra gagna sem varða þá lögreglurannsókn á Kickstarter-söfnuninni, meðal annars um samskipti lögreglu við bandarísku fjármögnunarsíðuna. Í kröfubréfinu segir að Ágúst Arnar áskilji sér allan rétt til þess að „leggja fram formlega kæru á þessum gagnaleka á síðari stigum.“

Ágúst Arnar segir að umfjöllun Kastljóss, sem leit ekkert of vel út fyrir þá bræður þar sem þeir virtust vera að fela sig á bak við hurð allan tímann, hafi rústað fyrirtækinu þeirra. „Rústaði náttúrlega mannorði mínu líka, ég missti íbúðina mína og kærustuna mína, allt sama daginn. Það var erfiður dagur.“

„Ástæðan fyrir því að við vorum að loka hurðunum, sem …
„Ástæðan fyrir því að við vorum að loka hurðunum, sem lítur ekki vel út, er að við vildum ekki að þeir væru að mynda hönnunina okkar og annað. Það var aðalástæðan, við vorum ekki að reyna að fela neitt.“ Skjáskot úr Kastljósi á RÚV í lok október 2015

„Ástæðan fyrir því að við vorum að loka hurðunum, sem lítur ekki vel út, er að við vildum ekki að þeir væru að mynda hönnunina okkar og annað. Það var aðalástæðan, við vorum ekki að reyna að fela neitt.“

Samkvæmt hljóðupptöku Ágústs Arnars buðu bræðurnir fréttamanninum að stíga inn fyrir án myndatökumanns og skoða vinnu þeirra, en það boð var ekki þegið.

Deilur um yfirráð yfir Zuism

Trúfélagið Zuism var viðurkennt sem trúfélag árið 2013. Ágúst Arnar er einn af upphaflegum stjórnarmönnum félagsins, en segist ekki hafa átt hugmyndina að stofnun félagsins, heldur hafi hún komið frá Óla, Ólafi Helga Þorgrímssyni, sem var forstöðumaður og einn stjórnarmanna félagsins í upphafi ásamt Ágústi Arnari og Einari.

„Þetta var einhver hugmynd, ég er fenginn til þess að verða einn af upprunalegum stjórnarmönnum og mér fannst þetta bara skemmtilegt, spennandi, ég var bara krakki þarna,“ segir Ágúst Arnar. Aðspurður segir hann að tilgangur stofnunar trúfélagsins hafi verið að iðka elsta trúarbragð í heimi. „Þetta er uppruni allar trúarbragða og við vildum bara iðka það, mér fannst þetta skemmtilegt að fræðast um þetta og lesa um þetta,“ segir Ágúst Arnar.

Trúfélagið var fámennt í upphafi, félagana var hægt að telja á fingrum annarar handar og það skilaði ekki inn ársskýrslum til sýslumannsins á Norðurlandi eystra, sem sér um eftirlit með trú- og lífsskoðunarfélögum. Ágúst Arnar segir að „mannleg mistök“ hafi valdið því að ársskýrslur hafi ekki farið frá félaginu, en það hafi alveg verið virkt þrátt fyrir það og þrátt fyrir félagafæðina.

„Þeir sem segja að félagið hafi aldrei verið virkt, þetta er bara einhver frásögn frá þeim, það voru vissulega bara 2-3 í félaginu en það var alveg virkt,“ fullyrðir Ágúst Arnar, en fulltrúi sýslumanns auglýsti eftir forsvarsmönnum félagsins í Lögbirtingablaðinu í apríl 2015 vegna meintrar óvirkni félagsins, án þess að hafa samband við skráða stjórnarmenn. Ólafur Helgi hafði þá sagt sig frá embætti forstöðumanns trúfélagsins og enginn leyst hann af hólmi.

Þá gaf sig fram hópur sem hafði fram að þessu ekkert haft með trúfélagið að gera og fékk heimild sýslumannsembættisins til þess að taka við félaginu. „Mér var bent á einhverja grein þar sem þeir sögðust vera með þetta félag og við bentum þeim á að svoleiðis væri það ekki,“ segir Ágúst Arnar sem segir að hann og Einar hafi viljað „setjast niður og finna einhverja lausn á þessu“ með hópnum sem á þessum tíma kom fram fyrir hönd Zuism, lofaði endurgreiðslu sóknargjalda og olli því að þúsundir Íslendinga hópuðust í söfnuðinn.

„Við höfðum ekkert á móti þessum strákum og okkur leist ekkert illa á þetta sem þeir voru að gera, þeir voru að virkja félagið og allt svoleiðis. Við ætluðum jafnvel að bjóða þeim að koma í stjórnina og tala við þá. Svo sögðust þeir ætla að hringja í okkur síðar um kvöldið, en þá er þáttur," segir Ágúst og vísar til Kastljóssþáttar á RÚV í lok árs 2015 þar sem einn „ný-zúistanna“ var í viðtali um fyrirætlanir félagsins varðandi endurgreiðslu sóknargjalda. Félagar í Zuism voru á þessum tíma orðnir um þrjúþúsund talsins.

„Ég sagði bara, þið eruð ekki með þetta félag og …
„Ég sagði bara, þið eruð ekki með þetta félag og ég skal bara sýna fram á það,“ segir Ágúst Arnar, sem fékk viðurkenningu sem réttmætur forstöðumaður trúfélagsins í lok september árið 2017. mbl.is/RAX

Ágúst Arnar segir að hópurinn sem reyndi að taka trúfélagið yfir hafi í raun gefið þeim bræðrum puttann og aldrei komið hreint fram. Á ákveðnum tímapunkti hafi hann ákveðið að berjast á móti yfirtökunni.

„Ég sagði bara, þið eruð ekki með þetta félag og ég skal bara sýna fram á það,“ segir Ágúst Arnar, sem fékk viðurkenningu sem réttmætur forstöðumaður trúfélagsins í lok september árið 2017.

Ágúst Arnar segir að bæði fyrir og eftir að hann var viðurkenndur sem forstöðumaður trúfélagsins hafi Halldór Þormar Halldórsson, starfsmaður sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra, lagt stein í götu trúfélagsins við hvert tækifæri og hallað réttu máli í samskiptum sínum við innanríkisráðuneytinu um samskipti trúfélagsins og hans sjálfs.

„Það er eins og allt sem við sendum til hans og varðar uppbyggingu félagsins fari bara í tætarann,“ segir Ágúst Arnar og bætir við að þetta hafi þýtt að félagið hafi ekki náð að uppfæra samþykktir sínar, breyta heimilisfangi sínu eða skrá vígslumenn á sínum vegum. Heilt yfir segir Ágúst Arnar að málefni trúfélagsins Zuism hafi verið „eins og heit kartafla hjá ríkinu“ og „hent á milli stofnana“.

Halldór Þormar Halldórsson fylgist með starfsemi trúfélaga í starfi sínu …
Halldór Þormar Halldórsson fylgist með starfsemi trúfélaga í starfi sínu hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Forsvarsmenn Zuism hafa ítrekað kvartað undan störfum hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum alltaf að fara rosalega langt til þess að óska eftir svörum og niðurstöðum. Eins og með Fjársýsluna, ástæðan fyrir því að við sóttum um dráttarvexti og annað, það var bara út af skætingi í þeim. Það var ekki einu sinni hægt að tala við okkur. Þetta er náttúrlega fé Zuism sem þau voru að halda og ef þau ætla að halda því og svo kemur í ljós að það var ranglega gert, þá skulda þau vexti, eða allavega fyrir mér. En því miður þá féll það ekki með okkur,“ segir Ágúst Arnar og vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Zuism gegn ríkissjóði sem kveðinn var upp 19. nóvember sl.

Í því máli vildi Zuism fá dráttarvexti greidda af þeim 53 milljónum sem ríkið hélt eftir á meðan óvissa var uppi um skráningu forstöðumanns trúfélagsins, auk þess sem áðurnefndur fulltrúi sýslumanns var sakaður um saknæma og ólögmæta háttsemi.

Á hvorugt var fallist og í dómi héraðsdóms segir raunar að þótt taka megi undir það með Zuism að skoðun sýslumanns hafi dregist mjög á langinn, hafi „atvik sem vörðuðu opinberar yfirlýsingar um tilgang [Zuism] tilefni til að efast um réttmæti skráningar [Zuism] sem trúfélags“. Einnig hafi upplýsingar sem sýslumanni bárust um rannsókn á meintum fjársvikum fyrirsvarsmanna Zusim einnig gefið tilefni til „sérstakrar varfærni af hálfu sýslumanns“ og því rétt að halda aftur af greiðslum til Zuism.

„Málamyndafélagsskapur“ að mati ríkisins

Aðalmeðferð í öðru dómsmáli, vegna ógreiddra sóknargjalda Zuism á árinu sem er að líða, fór fram núna í upphafi desembermánaðar og þar kom fram sú afstaða af hálfu lögmanns ríkisins að Zuism væri „málamyndafélagsskapur til að komast yfir fjármuni“.

Ágúst Arnar segir í samtali við blaðamann að svo sé ekki og fullyrðir að Zuism hafi á umliðnum árum staðið fyrir fjölda vígsluathafna, rétt eins og segir í ársskýrslum félagsins. Blaðamaður spyr hvort svo sé virkilega, þar sem hann hefur aldrei séð nein ummerki um brúðkaup eða aðrar vígslur á vegum Zuism.

Þá dregur Ágúst Arnar upp símann sinn og sýnir myndskeið af hjónavígslu tveggja karlmanna, sem hann segir að hafi átt sér stað sumarið 2018. Á myndskeiðinu stendur Ágúst Arnar á milli mannanna tveggja, hátíðlega klæddur og virðist vera að gefa þá saman.

„Hérna er fyrsta giftingin mín, tveir strákar sem ég gaf saman hérna,“ segir Ágúst Arnar, sem hefur aldrei svo blaðamaður viti til komið neinu á framfæri við fjölmiðla því til sönnunar að félagið bjóði raunverulega upp á þjónustu sem þessa. Þetta var eina dæmið um athöfn á vegum Zuism sem Ágúst sýndi blaðamanni.

Blaðamaður spyr hvernig standi á því að ekkert hafi heyrst af vígsluathöfnum á vegum félagsins, fyrst að þær væru stundaðar. Ágúst Arnar segir það í fyrsta lagi skýrast af því að hann hafi lengi óttast að vera að auglýsa viðburði á vegum félagsins, vegna hótana sem hann hafi fengið, en einnig sé það ekki hans að vera að „deila giftingum annarra.“

Zuism hefur staðið í nokkrum dóms- og stjórnsýslumálum gegn íslenska …
Zuism hefur staðið í nokkrum dóms- og stjórnsýslumálum gegn íslenska ríkinu á síðustu misserum og segir Ágúst Arnar að lögmannskostnaður félagsins sé mun hærri en þær sjö milljónir króna sem hann segir félagið hafa endurgreitt félögum sínum af sóknargjöldunum frá ríkinu. Mynd frá fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl á þessu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fékk alveg hótanir á sínum tíma, tvær alvarlegar hótanir, og tók þessu mjög alvarlega. Það var alveg mjög erfitt tímabil og maður varð varkár um sig, við héldum alveg einhverja viðburði og eitthvað svoleiðis, en mér leið mjög illa með að vera að auglýsa það og annað, upp á mitt eigið öryggi að gera,“ segir Ágúst Arnar, sem segist af sömu ástæðum hafa verið eins lítið í fjölmiðlum og hann hafi átt kost á.

„Þetta fer allt í einhverja fjölmiðlavitleysu, fyrir mér skilurðu. Mér finnst líka bara mjög hart sótt að mér. Mér finnst alltaf hafa verið að reyna að ná höggi á mig. Það er bara hringt í mig til að sækja á mig,“ segir forstöðumaðurinn.

Segist hafa endurgreitt tæpar sjö milljónir

Þegar Ágúst Arnar var viðurkenndur forstöðumaður Zuism árið í lok september 2017 fékk hann í fangið það verkefni að uppfylla loforð um að endurgreiða þeim þúsundum sem skráðst höfðu í félagið sóknargjöld sín.

Ágúst Arnar segir að hans fyrsta verk þegar hann fékk viðurkenningu sem forstöðumaður hafi verið að fara niður Þjóðskrá og sækja þangað lista yfir félaga í Zuism, til þess að hafa hann við höndina er kæmi að endurgreiðslunum.

„Allir sem höfðu samband við félagið fengu greitt og síðan var fullt af fólki sem var pirrað af því að það var búið að segja sig úr félaginu,“ segir Ágúst Arnar og útskýrir að þar sem hann hafi ekki haft aðgang að félagatalinu aftur í tímann hafi hann ekki getað sannreynt hverjir hefðu verið í félaginu og hverjir ekki. „Ef við hefðum farið að opna á það þá gæti hver sem er farið að gera sér leik að því að fá þetta,“ segir forstöðumaðurinn.

„Ég er búinn að fá nóg, ég er búinn að …
„Ég er búinn að fá nóg, ég er búinn að eiga í þessum slag og standa einn í þessum slag“ mbl.is/RAX

Ágúst Arnar segist í heildina hafa greitt tæpar sjö milljónir króna til sóknarbarna Zuism, en mun hærri upphæðir í lögfræðikostnað vegna allra þeirra málaferla sem félagið hefur staðið í undanfarin ár. Hann segir að forsvarsmenn Zuism hafi séð um að framkvæma endurgreiðslurnar, en ekki ráðið utanaðkomandi aðila til þess.

Sjö milljónir eru einungis lítill hluti af þeim tugmilljónum króna sem Zuism hefur fengið í sóknargjöld frá ríkinu, en samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins voru samtals 84,7 milljónir króna greiddar til félagsins á árunum 2016 til 2018. Á sama tíma nam rekstrarkostnaður félagsins rúmum 32 milljónum króna í heildina.

Ágúst Arnar segir að eignir félagsins í dag séu um það bil 50 milljónir króna í bankainnistæðum og ítrekar að hann ætli sér að opna á það að þeir sem telji sig „eiga inni“ sóknargjöld hjá trúfélaginu geti sótt um endurgreiðslu á þeim áður en félaginu verður slitið, sem Ágúst ítrekar að hann ætli að gera.

„Ég er búinn að fá nóg, ég er búinn að eiga í þessum slag og standa einn í þessum slag fyrir félaga mína og búinn að bjóða þeim öllum að fá borgað ef þeir vilja fá borgað og nú munu þeir aftur geta fengið borgað, ef þeir telja sig hafa misst af,“ segir Ágúst Arnar.

Búast má við dómi í máli Zuism gegn ríkinu á næstunni, en sama hvernig það mál fer þá virðist nokkurra ára skrautleg saga Zuism sem trúfélags vera farin að styttast í annan endann.

mbl.is