Fer 14 ferðir á Esjuna á morgun

John Snorri Sigurjónsson á toppi K2 árið 2017.
John Snorri Sigurjónsson á toppi K2 árið 2017. Ljósmynd/Kári G. Schram

Lokahnykkurinn í undirbúningi fjallagarpsins Johns Snorra Sigurjónssonar fyrir ferð sína á K2, næsthæsta fjall veraldar, hefst á morgun. Mun John Snorri þá klífa Esjuna upp að Steini hvorki meira né minna en 14 sinnum. Lagt verður af stað klukkan 18 annað kvöld og gerir John Snorri ráð fyrir að ganga viðstöðulaust til klukkan 22 á þriðjudagskvöld, eða í 28 klukkustundir. Göngufólki gefst kostur á að slást í för, einn og einn legg, en dagskrá æfingarinnar má sjá hér að neðan.

Í samtali við mbl.is segir John Snorri að gangan sé hugsuð sem fjáröflun fyrir ferðina á K2, en einnig góð æfing. „Þegar maður gengur á K2 getur maður þurft að labba í einhverja sólarhringa án þess að fá nokkra almennilega hvíld,“ segir John Snorri. Í fyrra, er hann gekk á K2, hafi hann til að mynd gengið stanslaust í yfir 24 tíma frá síðustu búðunum og upp á topp. „Svona æfing er því nauðsynleg til að prófa úthaldið og alla liðina,“ segir hann.

Í janúar heldur hann að landamærum Kína og Pakistan til að reyna við K2. Þetta er, sem fyrr segir, ekki fyrsta ferð Johns Snorra á K2, en ólík að því leytinu til að nú reynir hann við toppinn að vetrarlagi. Það hefur engum manni tekist áður. „Tilhugsunin um að sjá íslenska fánann fyrstan á toppnum að vetrarlagi, hún heldur manni gangandi,“ segir John Snorri.

Leiðangurinn er síður en svo ókeypis, en John Snorri gerir ráð fyrir að kostnaður við verkefnið hlaupi á 22-24 milljónum króna.

Þau sem vilja leggja John Snorra lið er bent á styrktarreikning 0549-26-000052, kt 200673-5499

 
Dagskrá æfingarinnar

Mánudagur:

 18:00 fyrsta ferð upp að steini 

20:00 önnur ferð upp að steini 

22:00 þriðja ferð upp að steini

Þriðjudagur: 

00:00 fjórða ferð upp að steini 

02:00 fimmta ferð upp að steini 

04:00 sjötta ferð upp að steini 

06:00 sjöunda ferð upp að steini 

08:00 áttunda ferð upp að steini 

10:00 níunda ferð upp að steini 

12:00 tíunda ferð upp að Þverfellshorni

14:00 ellefta ferð upp að steini 

16:00 tólftu ferð upp að steini 

18:00 þrettán ferð upp að steini 

20:00 fjórtánda ferð upp að steini 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert