Lítið um jólastress á Þorláksmessu

Margir lögðu lokahönd á jólainnkaupin á Glerártorgi í gær.
Margir lögðu lokahönd á jólainnkaupin á Glerártorgi í gær. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Þorláksmessa er einn stærsti dagur ársins hjá verslunum hvarvetna um landið og fylgir deginum oftast bæði jólastemning og stress. Verslunarfólk sem blaðamaður Morgunblaðsins gaf sig á tal við í gær var sammála um að jólaverslun hefði gengið ótrúlega vel í mánuðinum.

Spáðu flestir góðri sölu í gær og töldu að batnandi veðurspá gærdagsins víða um land væri góðs viti fyrir verslun. Höfðu margir orð á því að fólk hefði byrjað fyrr að undirbúa jólin í ár og því væri jólastressið í lágmarki hjá flestum. Margir lögðu leið sína í hlýjuna á Glerártorgi á Þorláksmessu en Ugla Snorradóttir, sölumaður hjá Halldóri Ólafssyni úrsmið, sagðist vera vel undirbúin fyrir daginn. Kvað hún starfsmenn hafa spáð því að meira yrði að gera en venjulega vegna veðurblíðunnar.

„Það var svo brjálað veður í gær að margt fólk sem kemur vanalega komst ekki út af veðri. Þannig að við erum búin að undirbúa okkur,“ sagði Ugla og bætti við: „Þetta er alltaf ótrúlega gaman. Þvílíkur „stemmari“ og allir í góðum gír.“

Jólastemningin var ekki síðri hjá kaupmönnum á Austurlandi en spurð um jólaverslunina í ár sagði Kristín Ólafsdóttir, eigandi gjafavöruverslunarinnar Klassík á Egilsstöðum, kauphegðun viðskiptavina hafa verið öðruvísi í ár en verið hefur og sagði að jólastressið virtist liggja minna á fólki í ár en oft áður. Sagði hún marga hafa byrjað fyrr en áður að kaupa jólagjafir og að fólk keypti nú fjölbreyttari vörur, að því er fram kemur í Morgunblaðiu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert