Fimm ára stúlkur ætla sér ekki í vændi

„Ef við ræðum þetta ekki, ef við fræðum ekki drengina …
„Ef við ræðum þetta ekki, ef við fræðum ekki drengina okkar þá erum við ekki að fara að bæta þetta. Samfélagið þarf að taka þessa umræðu,“ segir Alda. mbl.is/Ófeigur

„Eins og staðan er í dag þá eru þolendur mansals að upplifa gríðarlega mikinn skort á samhæfingu. Það er í raun verið að brjóta á réttindum þeirra á margan hátt víða um heim,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum.

Í síðustu viku fundaði hún með kollegum sínum í Varsjá í Póllandi um samhæfðar aðgerðir ÖSE-ríkja sem grípa skal til þegar upp koma mansalsmál. Handbók verður gefin út um þessi efni í janúar. 

„Þarna fjöllum við um það hvernig við bregðumst við. Kerfið þarf að vera til staðar til þess að taka á móti þolendum. Þeir eru settir í forgrunninn, að þeir nái að fóta sig í venjulegu samfélagi eftir svona atburði,“ segir Alda. 

Spurð hvaða áhrif samhæfðar aðgerðir sem þessar muni hafa segir Alda: „Þetta er í raun til þess gert að hnykkja á mikilvægi þess að bregðast við með réttum hætti. Það þarf líka að gera það til þess að ná fram sakfellingum og ná að vinna mál gegn gerendum með fullnægjandi hætti.“

Handbókin verður gefin út í 57 aðildarríkjum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en Alda segir að fulltrúar landanna hafi almennt verið sammála um samhæfðar aðgerðir. Hún getur þó ekki greint strax frá því opinberlega í hverju þessar aðgerðir felist. 

„Vændi er drifið af eftirspurn“

Vændi er nátengt mansali og var það einnig rætt í Varsjá. Alda segir að vændislöggjöfin á Íslandi, svokölluð sænsk leið, sé góð.

„Þetta er sú löggjöf sem margar aðildarþjóðir ÖSE horfa til þegar þeir eru að skoða löggjöf og hvað sé best að velja í þeim efnum. Frakkar eru nýbúnir að taka þessa löggjöf upp, Írar líka og norður-Írar.“

Þó má ýmislegt bæta í þessum efnum hérlendis.

„Það sem við höfum gagnrýnt mikið er nafnleysi gerenda. Þá er spurning hvaða hagsmuni eigi að meta meira, hagsmuni fjölskyldna kaupenda eða hagsmuni almennings. Vændi er drifið af eftirspurn, ef hún væri ekki til staðar þá væri ekkert vændi.“

„Þetta er umræða sem við þurfum að taka almennilega sem …
„Þetta er umræða sem við þurfum að taka almennilega sem samfélag og velta því fyrir okkur hvers vegna við gætum nafnleysis gerenda,“ segir Alda. mbl.is/Árni Torfason

Nauðsynlegt að fræða „drengina okkar“

Alda segir að ekkert eitt sé rétt hvað þetta varðar en umræðan sé mikilvæg.„Þetta er umræða sem við þurfum að taka almennilega sem samfélag og velta því fyrir okkur hvers vegna við gætum nafnleysis gerenda. Ýmist eru röksemdir sakborninga þær að verja skuli þeirra nánustu eða þeir vilji gæta persónuverndar og réttinda þess aðila sem þeir eru að kaupa vændi af en af hverju keyptu þeir þá vændi? Ef við ræðum þetta ekki, ef við fræðum ekki drengina okkar þá erum við ekki að fara að bæta þetta. Samfélagið þarf að taka þessa umræðu.“

Umræðan er ekki næg, að mati Öldu. Sérstaklega hvað varðar dökkar hliðar vændis. „Það skortir svo gríðarlega á þessa umræðu. Það hefur enginn hitt fimm ára stelpu sem ætlar að verða vændiskona þegar hún verður stór. Af hverju ræðum við þetta ekki? Af hverju er þetta svona mikið tabú? Ef þetta er svona eðlilegt, af hverju viðurkenna þeir sem kaupa vændi það ekki fyrir börnunum sínum? Þetta er svolítið mikill tvískinnungur þegar við erum að ræða þessi mál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina