Uppsögn Hoyvíkur-samningsins dregin til baka

Frá Tinganesi í Færeyjum. Þar er fundarsalur færeyska lögþingsins.
Frá Tinganesi í Færeyjum. Þar er fundarsalur færeyska lögþingsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögþing Færeyja samþykkti í fyrradag að draga til baka uppsögn Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja. Færeyska ríkisútvarpið, Kringvarpið, greinir frá þessu. Samningurinn heldur því gildi sínu, en hefði að óbreyttu fallið úr gildi um áramót.

Hoyvíkursamningurinn var gerður árið 2005 og er víðtækasti fríverslunarsamningur Íslands við annað ríki. Auk fríverslunar og frjálsra fjármagnsflutninga veitir hann Íslendingum og Færeyingum fullan rétt til búsetu í hinu ríkinu og leggur bann við mismunum milli íbúa.

Færeysk stjórnvöld sögðu samningnum upp í fyrra eftir að lög sem bönnuðu erlent eignarhald færeyskra sjávarútvegsfyrirtækja voru samþykkt, en slík takmörkun samrýmist ekki samningnum. Átti uppsögnin, sem fyrr segir, að taka gildi nú um áramót.

Stjórnarskipti urðu í Færeyjum eftir þingkosningar í haust, þar sem hægriflokkar náðu meirihluta á Lögþinginu. Hin nýja stjórn hefur breytt lögum um eignarhald í sjávarútvegi og í kjölfarið var samþykkt á lögþinginu með 16 atkvæðum gegn 13 að draga uppsögn samningsins til baka.

Uppsögn samningsins hefði meðal annars haft áhrif á starfsemi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja í Færeyjum, en útgerðarfélagið Samherji á 30% hlut í fyrirtækinu Framherja í Færeyjum og hefði þurft að selja þann hlut sinn fyrir 1. janúar 2025, ef uppsögnin hefði tekið gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert