„Ómetanlegt“ að finna stuðning að heiman

Hildur segir að Bjartsýnisverðlaunin styrki íslenskar rætur hennar.
Hildur segir að Bjartsýnisverðlaunin styrki íslenskar rætur hennar. Ljósmynd/Instagram

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari, er þakklát fyrir stuðninginn sem hún finnur frá Íslandi. Hún hlaut í dag bjartsýnisverðlaunin. Hildur er tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna sem veitt verða á sunnudaginn og segir hún að heiðurinn sem fylgir tilnefningunni sé mikill.

„Það er alveg yndislegt að finna stuðninginn frá Íslandi síðustu mánuði. Það er svo gaman að finna hvað fólk er spennt fyrir því sem er að gerast og fylgist vel með. Ég finn fyrir miklum stuðningi að heiman og það er náttúrlega algjörlega ómetanlegt að finna að heimastaðurinn manns sé með manni,“ segir Hildur. 

Upp á síðkastið hefur Hildur hlotið og verið tilnefnd til fjölda alþjóðlegra verðlauna. Hún vann Emmy-verðlaunin nýlega fyrir tónlist sína í Chernobyl-sjónvarpsþáttunum en hún var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir sömu tónlist. Því er vert að spyrja hvaða þýðingu íslensk verðlaun af nokkru minni stærðargráðu hafi fyrir þetta farsæla tónskáld.

„Ég held að það sé aðallega það að að finna að ræturnar séu ekki bara sterkar hjá mér heldur á báða vegu. Ég er búin að vera búsett úti svo lengi og maður missir svolítið tenginguna. Þetta styrkir ræturnar,“ segir Hildur. 

Ómögulegt að segja fyrir um úrslit Golden Globe

Hún gat ekki verið viðstödd verðlaunaafhendinguna þar sem hún flýgur til Los Angeles vegna Golden Globe-verðlaunanna á morgun. 

mbl.is greindi frá því í dag að gagnrýnandi New York Times spáði Hildi sigri. Hildur segist ekki þekkja til þess að henni sé spáð sigri. Hún segir ómögulegt að spá um slíkt. 

„Þetta er bara búið að vera svo mikið ævintýri nú þegar að vera tilnefnd og að fá að vera með í þessu öllu saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert