„Forgangsmál að tryggja öryggi bráðveikra sjúklinga“

Læknaráðið segir að nýlegar fréttir af atvikum á bráðamóttöku sýni …
Læknaráðið segir að nýlegar fréttir af atvikum á bráðamóttöku sýni því miður fram á hve viðkvæmt ástandið geti verið. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórn læknaráðs Landspítala ítrekar fyrri ályktanir sínar um erfiðar aðstæður á bráðamóttöku Landspítalans hvað varðar álag, plássleysi, mönnun og sýkingavarnir og þar með öryggi. Nýlegar fréttir af atvikum á bráðamóttöku sýna því miður fram á hve viðkvæmt ástandið getur verið.

Þetta kemur fram í ályktun stjórnar læknaráðs Landspítala. 

„Það hlýtur að vera forgangsmál að tryggja öryggi bráðveikra sjúklinga, meðhöndlun sjúklings í sjúkrabíl vegna plássleysis á bráðamóttöku er dæmi um óásættanlega stöðu. Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags en fjármögnun til heilbrigðismála á Íslandi er enn undir meðaltali Norðurlanda,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Stjórn læknaráðs skorar á heilbrigðisyfirvöld að auka fjárveitingar til Landspítalans þegar í stað. Stjórn læknaráðs skorar einnig á framkvæmdastjórn Landspítalans að grípa strax til þeirra aðgerða sem mögulegar eru miðað við núverandi fjárveitingar. Endurreisn heilbrigðiskerfisins þolir enga bið,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert