Fékk leyfi til að ryðja heiðina sjálfur

Vegagerðin vinnur nú að því því að opna veginn um …
Vegagerðin vinnur nú að því því að opna veginn um Öxnadalsheiði fyrir klukkan átta á morgun Skjáskot

Sigurður Jónsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, segist ekki hafa trú á því að fleiri muni sækja um leyfi hjá Vegagerðinni til að fara á eigin vegum með snjóblásara um Öxnadalsheiði líkt og átti sér stað í gær.

Ríkisútvarpið greindi frá því í dag að einstaklingur á jeppa hefði fengið leyfi Vegagerðarinnar til að að fara með snjóblásara í einkaeigu yfir heiðina þar sem viðkomandi þurfti að ná flugi en vegurinn um Öxnadalsheiði hefur verið lokaður vegna veðurs frá því snemma í gær.

Sagði Sigurður í samtali við RÚV að þetta væri í fyrsta sinn sem slík beiðni hefði borist. Var um að ræða jeppa sem fór með blásara á undan sér en nokkrir aðrir jeppar fylgdu á eftir en vegurinn lokaðist jafn óðum á eftir bílalestinni. 

Tilvikið einstakt

„Þetta er bara einstakt tilvik og ég á mjög erfitt með að trúa því að svona gerist aftur. Þó að það hafi oft komið upp að menn hafi mokað einhvern smá kafla til að komast leiðar sinnar,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is. Hann bætir við að óalgengt sé að einstaklingar eigi snjóblásara í einkaeigu.

Sigurður bendir á að samkvæmt lögum megi ekki moka vegi hjá Vegagerðinni nema með leyfi hennar. Segir hann atvikið þó aðeins koma Vegagerðinni til góða þar sem starfsmenn vinni nú að því að opna leiðina fyrir klukkan átta sem krefjist mikillar vinnu. 

„Þetta klárlega hjálpar okkur til þess. Þetta er ekkert nema bara gott fyrir okkur í sjálfu sér. Þó að það líti kannski út fyrir að vera hálfkjánalegt,“ segir Sigurður. „Þessi mokstur mun klárlega nýtast okkur og hefur nýst okkur mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert