„Telja ekki þörf á mínum kröftum“

Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ljóst að þeir sem stýra núna telja ekki þörf á mínum kröftum í framhaldinu,“ segir Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við mbl.is en eins og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag hverfa átta lykilstarfsmenn Seðlabanka Íslands frá bankanum í kjölfar nýs skipurits hans sem kynnt var í gær. Þar á meðal er Jón Þór en sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins tók gildi um áramótin.

Spurður um málið segist Jón Þór ekki ætla að tjá sig frekar um málið. Hann hafi sem kunnugt er sótt um stöðu aðstoðarseðlabankastjóra en ekki fengið. Aðrir en hann væru betur til þess fallnir að útskýra hvers vegna hans starfskrafta væri ekki óskað frekar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir „ýmsa krafta“ að baki ákvörðuninni

Jón Þór segir í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun að hann, ásamt fleirum, hafi á síðustu fimmtán mánuðum unnið samviskusamlega að því að tryggja að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins yrði sem farsælust. „Ýmsir kraftar valda því að öðrum en mér verður falið að sigla þessu verkefni í höfn.“ Ljóst væri að mikið óunnið verk væri eftir við að tryggja skilvirkan og sterkan sameinaðan Seðlabanka. Óskar hann stjórnendum bankans velfarnaðar í því flókna verkefni. Framhaldið sé óráðið hjá honum.

Spurður hvaða ýmsu krafta hann er að vísa til segist Jón Þór ekki telja ástæðu til þess að tjá sig frekar um það. Facebook-færslu sinni lýkur hann á þessum orðum:

„Það er með nokkrum trega sem ég kveð nú Fjármálaeftirlitið eftir nærri sjö ára starf og Seðlabankann eftir sjö daga. Á þessum tíma hef ég fengið tækifæri til að sinna afar þýðingarmiklum störfum við að stuðla að öryggi og heilbrigði í fjármálastarfsemi og byggja upp varnir gegn framtíðar fjármálaáföllum. Ég hef líka notið þess að vinna með frábærum hópi úrvalsfólks sem ég vil þakka kærlega fyrir frábæra viðkynningu.“

mbl.is