Birgja sig upp vegna óveðursins

Pétur Stefánsson í Varmahlíð.
Pétur Stefánsson í Varmahlíð. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúar í Varmahlíð og nágrenni hafa verið duglegir við að birgja sig upp í verslun Olís í Varmahlíð vegna óveðursins sem hefur gengið yfir landið.

„Heimafólkið kemur og hamstrar meira þegar það er opið og fært. Svo koma dagar þegar fólkið kemst ekkert af bæ. Svo þegar heiðarnar opnast kemur holskeflan á okkur úr báðum áttum en fólk er farið að undirbúa sig fyrir næsta hríðarskot og birgir sig vel upp,“ segir Pétur Stefánsson stöðvarstjóri, spurður út í viðskiptin. Helst kaupir fólk brauð og mjólk, ásamt eldsneyti.

Pétur segir ófærðina mikla allt í kringum Varmahlíð núna, heiðarnar séu lokaðar beggja megin við staðinn og fáir bíði þar átekta núna. Mun fleiri bílar hafi komið fyrir nokkrum dögum.

„Þetta er orðið alveg nóg,“ segir hann um veðrið og vonar að það fari að ganga niður í kvöld og í nótt. „Þetta er orðinn langur tími.“

Hann bætir við: „Hér er bara hörkuvetur. Það moksnjóar og það er norðanátt. Hún er ekkert mjög hvöss en það er blint. Það sér rétt niður fyrir ána fyrir neðan Varmahlíð.“

Öxnadalsheiðin í dag.
Öxnadalsheiðin í dag. Ljósmynd/Vegagerðin

Hann kveðst ekkert hafa þurft að aðstoða bíla í nágrenninu vegna ófærðar. Afgreiðslutíminn hefur aftur á móti verið lengdur í báðar áttir til að geta hleypt fólki inn bæði fyrr á morgnana og seint á kvöldin þegar hentar. Þar eru flutningabílstjórar fjölmennastir sem hringja á undan sér. „Þeir hafa beðið okkur að doka við og það er sjálfsagt að gera það.“

Að sögn Péturs eru fáir inni í veitingaskálanum núna. Þó eru þar bæði Íslendingar sem eru strandaglópar og útlendingar. Hann bendir jafnframt á að Hótel Varmahlíð hafi verið vel nýtt undanfarna daga.

mbl.is