Neyðarstigi lýst yfir vegna snjóflóða

Úr höfninni á Flateyri í nótt.
Úr höfninni á Flateyri í nótt. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Stúlkan sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri í gærkvöldi er um borð í varðskipinu Þór ásamt aðstandendum á leið til Ísafjarðar. Hún er ekki með áverka og engrar manneskju er saknað. Þór kom með björgunarsveitarfólk á svæðið í nótt en neyðarstigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði. 

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð klukkan 23:56 í gærkvöldi. Samhæfing aðgerða fer fram í samhæfingarstöðinni. Aðgerðastjórn á Ísafirði var virkjuð kl. 23.44. 

Varðskipið Þór, sem var statt á Ísafirði þegar snjóflóðin féllu í gærkvöldi, kom með 35 björgunarsveitarmenn til Flateyrar í nótt og urðu 15 björgunarsveitarmenn, lögreglumenn og sjúkraflutningafólk eftir á Flateyri þegar varðskipið sneri aftur til Ísafjarðar segir Rögn­vald­ur Ólafs­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra.

Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fastlega er gert ráð fyrir að Þór fari aðra ferð til Flateyrar með morgninum með fólk sem tekur þátt í að opna fjöldahjálparstöð á Flateyri en hún verður opnuð um leið og áfallateymið frá Ísafirði kemur þangað. Þar verður íbúum boðið upp á  stuðning, meðal annars áfallahjálp, segir Rögn­vald­ur. Ljóst er að þörf er á sálrænum stuðningi í kjölfar atburðanna.

Tjónið verður metið síðar í dag á Flateyri og Suðureyri.
Tjónið verður metið síðar í dag á Flateyri og Suðureyri. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð skömmu eftir kl. 23 í gærkvöldi og náðu bæði út í sjó, annað úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll að hluta yfir varnargarð og á hús að Ólafstúni 14 og grófst unglingsstúlkan í flóðinu. Hún var í húsi í bæn­um sem varð fyr­ir öðru snjóflóðanna, því síðara sem féll á tólfta tím­an­um í gærkvöld. Aðrir sem voru í húsinu komust af sjálfsdáðum út. Þriðja flóðið féll í Súgandafirði fjarri byggð. Ekki er talið að aðrir hafi lent í snjóflóðunum sem féllu, hvorki á Suðureyri né Flateyri, segir Rögnvaldur. 

Komst ekki inn í höfnina 

Varðskipið Þór hafði verið á Ísafirði síðan á fimmtudag vegna veðursins. Skipið var strax gert klárt til brottfarar þegar fréttir bárust af snjóflóðunum og flutti 24 björgunarsveitarmenn, tvo lögreglumenn og sjúkraflutningamann auk læknis frá Ísafirði til Flateyrar. Þór komst ekki inn í höfnina en ferjaði fólk með léttbátum í land.

Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var sömuleiðis kölluð út og var í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Ekki reyndist þörf á að senda þyrluna vestur en slökkviliðsmenn úr slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru í viðbragðsstöðu. 

Enn er mikil snjóflóðahætta á norðanverðum Vestfjörðum og appelsínugul viðvörun í gildi og gildir hún til hádegis. 

Ófært á milli staða

Rögnvaldur segir að ekki sé fært á milli þéttbýliskjarna á Vestfjörðum nema á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og það er aðallega út af jarðgöngunum. Að öðru leyti er ófært milli þéttbýlisstaða aðallega vegna snjóflóðahættu. Hann segir að með morgninum verði staðan tekin og hvort óhætt sé að opna einhverjar leiðir á milli bæja. Á meðan staðan er eins og hún er núna verður Þór til taks fyrir vestan.

Vegum var lokað við Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Skutulsfjarðarbraut, Kirkjubólshlíð og Flateyrarveg og Neyðarlínan sendi SMS á íbúa á Suðureyri og þeir beðnir um að halda kyrru fyrir. Mannaðir voru lokunarpóstar á öllum helstu stöðum. Vegfarendur eru eindregið hvattir til að virða þessar lokunarráðstafanir, samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarmiðstöðinni.

Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Þriðja snjóflóðið féll í Súgandafirði við Norðureyri og náði einnig út í sjó. Flóðbylgja af völdum þess olli skemmdum við ströndina utan og innan við höfnina, en ekki slysum á fólki. Nánari upplýsingar verða birtar um flóðin þegar tækifæri hefur gefist til að skoða þau, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar og lögreglan hafa farið yfir þau svæði þar sem snjóflóðahætta er talin kunna að skapast og hefur fólk yfirgefið nokkra sveitabæi í öryggisskyni.

Hitt flóðið féll innan við leiðigarðana og alla leið ofan í höfnina á Flateyri þar sem bátar slitnuðu frá og nokkrir sukku. Þá féll enn eitt flóðið úr norðanverðum Súgandafirði niður á Norðureyri og fram í sjó. Við það myndaðist flóðbylgja sem skall á höfninni og fjörunni á Suðureyri þar sem bátar slitnuðu frá og sjór flaut um næstu götur. Tjón liggur ekki fyrir. Engrar manneskju er saknað.

Fjögur hús rýmd á Suðureyri

Veðurspáin gerir ráð fyrir að það dragi hægt úr vindi um og eftir hádegi, 10-15 m/s undir kvöld (miðvikudagskvöld) á láglendi jafnt sem í fjallahæð. Samhliða minnkandi vindi dregur úr ofankomu og verður orðið úrkomulítið í kvöld, miðvikudagskvöld. Aðfaranótt fimmtudags verður hæg austlæg eða breytileg átt, skýjað og úrkomulítið. Það hlýnar heldur er lægir og hiti verður um og jafnvel aðeins yfir frostmarki aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudag. Veðurstofan mun ekki endurmeta ofanflóðaspá fyrr en í birtingu.

Staðir sem huga þarf að samkvæmt snjóflóðavakt Veðurstofunnar: Suðureyri, Minnihlíð, Neðri-Breiðadalur, Höfði í Skutulsfirði, Núpur, Ytri-Veðrará, Fremstuhús, Geirastaðir. Einnig þarf að huga að Barðaströnd, og e.t.v. Patreksfirði og fleiri stöðum á Suðurfjörðunum. Fjögur hús voru rýmd á Suðureyri og íbúar í efstu húsum á Flateyri yfirgáfu hús sín.

Olíutankar fóru með flóðinu

Búfjáreigendur í Engidal eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum um veður, færð og annað á síðu Vegagerðarinnar og Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum. Tveir lögreglumenn fóru með varðskipinu til að meta ástand, tjón og setja upp vettvangsstjórn.

Eignatjón er erfitt að meta á þessari stundu en verður kannað betur í birtingu, samkvæmt upplýsingum frá samhæfingarmiðstöð. Hætta talin á mengun vegna olíutanka sem fóru með flóðinu á Flateyri. 

Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir
mbl.is