Varað við vatnavöxtum á Suður- og Vesturlandi

Flughálka getur myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó, …
Flughálka getur myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó, líkt og spár dagsins gera ráð fyrir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í dag er útlit fyrir sunnanhvassviðri eða -storm með vætusömu veðri. Líkur eru á töluverðum vatnavöxtum á Suður- og Vesturlandi í dag og á morgun. 

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á miðhálendinu vegna storms en gular viðvaranir eru á Breiðafirði, Suðausturlandi og Austurlandi að Glettingi vegna hvassviðris. 

Vegna vætu og hláku dagsins er vert að taka fram að leysingar- og regnvatn þarf að komast leiðar sinnar og þarf því að ganga úr skugga um að fráveitukerfi virki sem skyldi til að forðast vatnstjón. Flughálka getur myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó. Þegar einnig er hvass vindur eru aðstæður til aksturs mjög varasamar.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafa ísstíflur myndast í Hvítá á Suðurlandi vestan Hestfjalls. Vatn safnast saman fyrir ofan ísstíflurnar og vatnshæð hefur hækkað. Þar hefur m.a. flætt að orlofshúsum við Höskuldarlæk. 

Gert er ráð fyrir hlýnandi veðri og töluverðri úrkomu á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Því eru líkur á að vatnshæð á svæðinu hækki meira og að flæði enn frekar í nærumhverfi árfarvegarins. Enn fremur er möguleiki á þrepahlaupum þegar ísstíflurnar losna og rennsli árinnar getur aukist töluvert í skamman tíma í kjölfarið.

Þessi mikla úrkoma og leysing mun líklega einnig valda nokkrum vatnavöxtum í ám og lækjum á sunnan- og vestanverðu landinu sem gætu haft áhrif á næsta umhverfi vatnsfarveganna. Sérstaklega má búast við auknu afrennsli á norðanverðu Snæfellsnesi, svæðinu í kringum Mýrdalsjökul og á SA-landi. Einnig eru líkur á vatnavöxtum í Skagafirði og Eyjafjarðará vegna snjóbráðar í kjölfar hækkandi hita og hvassra vinda.

Í kvöld dregur heldur úr vindinum og fer að kólna á landinu. Á morgun er síðan hvöss suðvestanátt í kortunum með éljum, en bjartviðri um landið austanvert. Hiti nálægt frostmarki.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is